Yos­hiro Mori mun ekki stíga til hliðar sem for­seti Ólympíu­nefndar Japan vegna um­mæla hans í garð kvenna en á fundi stjórnar­með­lima nefndarinnar fyrr í vikunni sagði hann að honum þætti konur tala of mikið á fundum þar sem þær væru svo keppnis­samar.

Að því er kemur fram í frétt ESPN um málið hefur Mori verið harð­lega gagn­rýndur vegna um­mælanna en konur standa höllum fæti þar í landi í flestum stjórnunar­stöðum og stjórn­málum. Á blaðamannafundi í dag viðurkenndi Mori segir að um­mælin hafi ekki verið í anda Ólympíu­leikanna.

„Ég er fullur iðrunar. Ég myndi vilja draga um­mælin til baka. Ég vil biðjast af­sökunar á hvers kyns ó­þægi­legum til­finningum,“ sagði Mori en hann stóð aftur á móti á sínu þrátt fyrir gagnrýni. „Ég er búinn að leggja hart að mér og hjálpað trú­fast­lega í sjö ár. Ég mun ekki stíga til hliðar.“

Leikarnir í uppnámi

Ólympíu­leikarnir í Tókýó hafa verið í tölu­verðu upp­námi þar sem þeim var frestað í fyrra vegna kóróna­veirufar­aldursins og eru vanga­veltur á lofti um hvort það þurfi að fresta þeim aftur í ár eða jafn­vel af­lýsa þeim.

Al­þjóða­ólympíu­nefndin og japönsk stjórn­völd hafa þó full­yrt að leikarnir fari fram í ár en á­ætlað er að þeir hefjist í júlí. Talið er að kostnaðurinn við leikana sé komin yfir 25 milljarða dollara.