Nokkur NBA-lið munu opna dyrnar á æfingaaðstöðu sinni og hefja æfingar í dag. Samkvæmt Washington Post er líklegt að æfingar verði ansi frábrugðnar þeim sem leikmenn þekktu áður en kórónaveiran kom fram á sjónarsviðið.

Leikmenn verða skikkaðir til að æfa með grímur og öll lið verða að sótthreinsa öll sín áhöld samkvæmt minnisblaði sem blaðið birti í gær.

Cleveland Cavaliers, Denver Nuggets og Portland Trail Blazers byrja í dag og Houston Rockets íhugar að opna sína aðstöðu einnig.

NBA-deildin hætti keppni eftir að Rudy Gobert, stjörnumiðherji Utah Jazz, smitaðist af COVID-19 snemma í mars. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að Gobert hafði smitað Dononvan Mitchell, liðsfélaga sinn hjá Jazz, af veirunni. Mitchell og Gobert hafa báðir náð bata af sjúkdómnum.