NBA körfuboltamaðurinn Enes Kanter Freedom, hvetur til sniðgöngu Vetrarólympíuleikanna sem hefjast eftir rúmar þrjár vikur í Peking í Kína.

Enes, sem er leikmaður NBA liðs Boston Celtics, var í viðtali á BBC á dögunum þar sem hann gagnrýndi lélegan árangur stjórnvalda í Kína í mannréttindamálum.

,,Það er mikilvægt að við íþróttafólkið nýtum okkar stöðu til þess að vera rödd þessa saklausa fólks víðs vegar um heiminn sem hafa ekki rödd," sagði Enes í viðtalinu á BBC.

Hann segir allt of mikið af þekktu, frægu fólki, hræðast það að segja hug sinn og tala máli þeirra sem minna mega sín. ,,Peningar spila þar mikið inn í og auðvitað þegar Kína er að borga reikninginn þá erum við hrædd við að tjá hug okkar."

Enes er einn af þeim íþróttamönnum sem þegir ekki yfir óréttlæti. Hann hefur gagnrýnt Kína opinberlega áður í kringum stjórnarhætti ríkisins gagnvart Tíbet og stöðu Uyghur Múslima. Í viðtalinu á BBC segist hann hafa haft samband við Ólympíufara sem eru á leið á Vetrarólympíuleikana í Peking.

,,Ég hef sest niður með mörgu íþróttafólki og átt við þau samtal. Það fyrsta sem ég bendi á og segi þeim er það hvernig kínversk stjórnvöld komu fram við tenniskonuna Peng Shuai, eigum við virkilega að fara treysta þeim fyrir okkar eigin íþróttafólki?"

Hann vill að íþróttafólk sniðgangi komandi Vetrarólympíuleika. ,,Það er mín skoðun að íþróttafólk eigi að stíga fast til jarðar og segja 'ég get ekki tekið þátt á leikum þar sem þjóðarmorð á sér stað, þar sem mannréttindi eru virt að vettugi, þar sem fólki er misþyrmt og það pyntað í fangabúðum."