Rétt áður en leikur Utah Jazz og Oklahoma City Thunder hófst í nótt tilkynntu forráðamenn NBA-deildarinnar að tímabilinu hefði verið frestað í óákveðin tíma.

Óstaðfestar fréttir herma að Rudy Gobert, miðherji Jazz-liðsins, hefði greinst með COVID-19 sjúkdóminn og þyrfti því að fara í einangrun í tvær vikur ásamt liðsfélögum sínum.

„Þetta er klikkun. Þetta getur ekki verið satt. Það er eins og þetta sé sena í kvikmynd. Óraunverulegt,“ sagði Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, þegar hann fékk fréttirnar. „Þetta snýst ekki um körfubolta eða peninga. Þetta vex svo hratt og nú er maður farinn að hugsa um fjölskyldurnar. Við erum að passa upp á það að gera þetta með réttum hætti“ sagði Cuban.

Skömmu áður hafði lið Golden State Warriors tilkynnt að leikir liðsins yrðu án áhorfenda en forsvarsmenn NBA-deildarinnar stigu skrefinu lengra.