Íslandi tókst ekki að vinna upp tíu marka mun Spánverja og fer því ekki í lokakeppni HM eftir 32-31 sigur í leik liðanna í kvöld.

Þetta var síðari leikur liðanna í umspili upp á sæti á HM sem fer fram í Japan síðar á þessu ári.

Sjö ára bið íslenska kvennalandsliðsins eftir því að komast á stórmót lengist því að hið minnsta um eitt ár.

Ísland var skrefinu á eftir lengst af í leiknum í kvöld og virðist spænska liðið hafa verið númeri of stórt.

Það var margt jákvætt í leik íslenska liðsins, þær náðu að stela mörgum boltum og sóknarleikurinn gekk heilt yfir vel eftir brösuga byrjun.

Þórey Rósa sem var að leika 101. leik sinn fyrir landsliðið sækir hér að marki Spánverja
Fréttablaðið/Ernir

Ljóst var að verkefnið var nánast ómögulegt fyrir kvöldið enda þurfti íslenska liðið að vinna upp níu marka forskot eftir 35-26 sigur Spánverja í fyrri leik liðanna.

Líkt og á Spáni gekk sóknarleikurinn brösuglega fyrstu mínútur leiksins þegar það vantaði meiri ákveðni í að taka af skarið.

Karen Knútsdóttir var beitt í sóknarleik Íslands og skoraði hún fyrstu þrjú mörk Íslands og fljótlega fóru aðrir leikmenn að láta til sín taka.

Á hinum endum vallarins var varnarleikur Íslands öflugur og tapaði spænska liðið fjölmörgum boltum snemma leiks sem gerði það að verkum að staðan var jöfn 7-7 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn fór spænski markvörðurinn að taka fleiri bolta og með því náði spænska liðið forskotinu á ný en Íslandi tókst að halda sér inn í leiknum með öflugum varnarleik og í markinu fór Hafdís Renötudóttir að taka bolta.

Munaði tveimur mörkum í hálfleik, 15-13 fyrir Spán og því tólf mörk sem íslenska liðið þurfti að vinna upp í þeim síðari.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn og voru Stelpurnar okkar fljótlega búnar að jafna metin. Spánverjar voru skrefinu á undan en Ísland var aldrei langt undan og komst Ísland fyrst yfir um miðbik seinni hálfleiks.

Ísland náði að koma muninum upp í tvö mörk en það reyndist stærsta forskot Íslands í leiknum því spænska liðið tók við sér við það og komst aftur yfir.

Á lokamínútum leiksins tókst Íslandi að sigla fram úr á nýjan leik og tryggja sér sigur þegar Spánverjar misstu tvo leikmenn af velli með brottvísun.

Arna Sif Pálsdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með átta mörk og í hinu horninu var Sigríður Hauksdóttir öflug með sjö mörk.