Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu misstu Portúgal fram úr sér á lokamínútum leiksins í 26-23 sigri Portúgal ytra í kvöld.

Þetta var fyrsta viðureign liðanna af þremur á næstu dögum en liðin mætast á ný á Ásvöllum á sunnudag í seinni leik liðanna í undankeppni EM.

Liðin skiptust á mörkum í upphafi leiks þar til Portúgalir náðu frumkvæðinu um miðbik fyrri hálfleiks.

Mest fór munurinn upp í þrjú mörk rétt áður en liðin gengu inn til hálfleiks en íslenska liðið gafst ekki upp.

Þegar líða tók á seinni hálfleikinn fór Ágúst Elí Björgvinsson að verja fleiri bolta og náði Ísland að komast yfir með góðum leikkafla um miðbik seinni hálfleiks.

Næstu tíu mínútur var allt í járnum en á lokamínútum leiksins náðu Portúgalir að sigla fram úr og landa sigrinum.

Bjarki Már Elísson og Elvar Örn Jónsson voru markahæstir í liði Íslands með sex mörk hver.