Natasha Moraa Anasi er gengin til liðs við kvennalið Breiðabliks í fótbolta en hún hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið.

Natasha, sem er þrítug, kemur í Kópavoginn frá Keflavík þar sem hún hefur verið fyrirliði síðustu ár.

Hún kom fyrst til landsins til að spila með ÍBV árið 2014 og hefur verið hér síðan og fest rætur.

Natasha fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir tveimur árum og hefur þegar spilað tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Natasha hefur skorað 50 mörk í 153 leikjum hér á landi þrátt fyrir að spila helst sem hafsent eða miðjumaður.

Hún er ekki lögleg með Blikum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessu keppnistímabili.