Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í Íþróttavikuna með Benna Bó sem sýnd er á Hringbraut á föstudagskvöldum. Gestur með honum var Hjörvar Hafliðason, doktor Football.
Þeir fóru yfir fréttir vikunnar og fóru meðal annars að ræða um að UEFA ætli að loka gatinu sem Chelsea fann á fjárhagsreglum UEFA.
„Hugmyndin gengur út á það sé þak sett á það sem þú getur eytt. Og leiðin sem þeir fóru var að dreifa kostnaði yfir mjög langan tíma. Borga einn áttunda á ári. Ég held að það sé skynsamlegt,“ sagði Bjarni.
Hjörvar benti á að peningarnir væru miklir í ensku úrvalsdeildinni og fólk verði að átta sig á að Ofurdeildin væri þegar til. „Leikmenn í Nottingham Forest eru að koma frá Atletico Madrid. Þeir eru að fara frá sömuleiðis frá Atletico í Úlfana.
Við erum að horfa á úrslitaleikinn á HM og það er Heimsmeistari sem spilar í Brighton og Aston Villa. Eðlilega horfa snillingarnir á Spáni slefandi á peningana í Englandi og hugsa: Við verðum að komast í eitthvað af þeim.
Spánverjar eru að verða langt á eftir. Það fara fjögur lið í riðlakeppnina í Meistaradeildina og það er eitt lið sem fer áfram í 16 liða úrslitin.
Öll stóru félagaskiptin í janúar eru frá Englandi og fólk verður að átta sig á því að Ofurdeildin er þegar til.“