Liðin eru bæði með fullt hús stiga eftir fyrstu fjóra leiki sína í undankeppninni og hafa hvort um sig fengið á sig eitt mark til þessa en Svíar eru á toppi riðilsins fyrir þennan leik þar sem liðið hefur skorað 24 mörk á meðan íslenska liðið hefur skorað 20 mörk.Efsta liðið í riðlinum fer beint í lokakeppni mótsins á meðan þrjú liðin með bestan árangur í öðru sæti í riðlunum níu fara beint þangað. Hin sex liðin sem hafna í öðru sæti fara í umspil um þrjú laus sæti á mótinu. England hefur svo nú þegar tryggt sér farseðilinn á mótið sem gestgjafi.

Eins og sakir standa er Ísland í þriðja sæti af þeim liðum sem sitja í öðru sæti í riðlunum á eftir Sviss og Írlandi sem hafa 13 stig. Ítalía er með jafn mörg stig og Ísland en ítalska liðið er með lakari markatölu eftir stórsigra Íslands á Lettlandi í síðustu leikjum liðsins.Dagný Brynjarsdóttir, sem skoraði þrennu í síðasta leik Íslands í riðlinum á móti Lettum, og Elín Metta Jensen, sem skoraði eitt marka íslenska liðsins í þeim leik, eru markahæstu leikmenn riðilsins með fimm mörk.

Anna Anvegård, samherji Glódísar Perlu Viggósdóttur hjá Rosengård, og samherjarnir hjá Juventus, varnarmaðurinn Linda Sembrant og framherjinn Lina Hurtig, hafa skorað mest fyrir Svíþjóð eða þrjú mörk hver.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður sænska úrvalsdeildarliðsins Djurgården, er mjög spennt fyrir leik kvöldsins en hún er nýfarin að spila á ný með félagsliði sínu eftir að hafa fætt tvíbura fyrr á þessu ári. Guðbjörg sem á að baki 64 leiki fyrir Íslands hönd segir Svía gera sér grein fyrir að leikurinn í kvöld verði afar erfiður en íslenska liðið sé að mæta því sænska á heppilegum tíma.

„Þeirra styrkleiki hefur í gegnum tíðina verið að halda boltanum vel og splundra vörn andstæðinga sinna með hröðu spili á réttum augnablikum. Þær eru alla jafna með hraða framherja sem gera varnarlínum lífið leitt. Í síðustu leikjum hafa hins vegar föst leikatriði verið helsta sóknarvopn sænska liðsins. Við höfum verið í heims­klassa á þeim vettvangi og ég held að baráttan inni í vítateig liðanna í föstum leikatriðum muni ráða miklu um úrslit leiksins í kvöld,“ segir Guðbjörg um leikinn gegn bronsliðinu frá HM síðasta sumar.

Vantar öfluga leikmenn í sænska liðið

„Við erum að mæta þeim á fínum tíma þar sem það eru meiðsli í leikmannahópnum og þá eru tveir lykilleikmenn að spila á Spáni þar sem lítið hefur verið spilað síðustu mánuðina vegna kórónaveirufaraldursins. Aðalmarkvörður þeirra, Hedvig Lindahl, er meidd og í hópnum eru góðir markmenn sem hafa hins vegar ekki mikla landsliðsreynslu og eru ekki vanar að spila með varnarlínu sænska liðsins.

Þær eru svo vængbrotnar fram á við þar sem Fridolina Rolfö, þeirra besti framherji, og annar framherji, Stina Blacksteinius, eru meiddar og verða ekki með.Þá hafa sóknartengiliðurinn Kosovare Asllani og sóknarmaðurinn Sofia Jakobsson ekkert spilað með félagsliði sínu, Real Madrid, undanfarið og þær eru því ekki í góðu leikformi. Þetta eru hins vegar góðir og reynslumiklir leikmenn sem geta tekið leikinn yfir. Þær eru með öfluga sóknarmenn til þess að fylla skörðin, það má ekki gleyma því.

Sænska liðið hefur svo verið í vandræðum með hægri bakvarðarstöðuna og það var til að mynda miðvörður sem spilaði þar í síðasta leik. Ég held að okkur hröðu kantmenn ættu að geta herjað á bakverðina hjá þeim,“ segir landsliðsmarkvörðurinn enn fremur.Óvíst er hvort Jón Þór Hauksson teflir fram sama liði og lék frábærlega gegn Lettlandi á fimmtudaginn eða breyti til.

Miðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir sem fór meidd af velli gegn Lettum er búin að hrista af sér smávægileg meiðsli og æfði með liðinu í gær. Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Breiðabliks, lék frábærlega í eldskírn sinni með kvennalandsliðinu gegn Lettlandi á dögunum. Þar fékk Sveindís leyfi til að herja á bakvörð Letta og fór oft á tíðum illa með vörn gestanna sem skilaði tveimur af níu mörkum íslenska liðsins en sóknartengiliðir Íslands þurfa eflaust að sinna meiri varnarskyldu í kvöld.

Þá gæti þjálfarateymið fært Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur upp á miðjuna til að færa liðinu meira stál á miðsvæðið við hlið Söru Bjarkar og Dagnýjar en þá þyrfti að finna bakvörð í stað Gunnhildar sem hefur leyst stöðuna stórvel í undanförnum leikjum.