Það er óhætt að segja að Coco Gauff sé líkleg til að taka við titlinum sem besta tenniskona heims á næstu árum en þessi táningur er líklegur til að feta fótspor Serenu Williams ef hún heldur rétt á spöðunum.

Þrátt fyrir að vera enn á grunnskólaaldri er Gauff sem heitir réttu nafni Cori Gauff að keppa á sínu fimmta risamóti í tennis og hefur hún nú tekið þátt í öllum fjórum risamótunum, Opna ástralska- , Opna franska-, Opna bandaríska meistaramótinu og Wimbledon meistaramótinu.

Gauff er elst þriggja systkina og voru foreldrar hennar virk í íþróttum á sínum yngri árum. Faðir hennar lék með Georgia State háskólanum í körfubolta á meðan móðir hennar var í frjálsíþróttaliði Florida State, skólanum sem Dagný Brynjarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir léku knattspyrnu með á sínum tíma.

Gauff er elst þriggja systkyna og voru foreldrar hennar virk í íþróttum á sínum yngri árum. Faðir hennar lék með Georgia State háskólanum í körfubolta á meðan móðir hennar var í frjálsíþróttaliði Florida State, skólanum sem Dagný Brynjarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir léku knattspyrnu með á sínum tíma.

Að sögn Gauff heillaðist hún fyrst af tennis þegar hún var fimm ára gömul að fylgjast með Serenu Williams á Opna ástralska meistaramótinu í tennis árið 2009. Foreldrar Gauff létu hana einnig æfa körfubolta og frjálsar íþróttir en það sást snemma að hún væri bráðefnileg í tennis og vann hún fyrsta mót sitt átta ára.

View this post on Instagram

x @serenawilliams

A post shared by Coco Gauff (@cocogauff) on

Eftir að hafa unnið mótið átta ára gömul fékk hún að hitta Serenu í fyrsta sinn og átti eftir að leika í auglýsingu með Serenu þegar hún var tíu ára gömul og farin að vinna með fyrrum þjálfara Serenu.

Þegar Gauff var tíu ára gömul fór hún í akademíu Patrick Mouratoglou sem þjálfaði Serenu Williams lengi vel og sagði Patrick það strax augljóst að Gauff gæti orðið sú besta í heiminum. Patrick var tilbúinn að hjálpa fjölskyldunni fjárhagslega til þess að Gauff gæti haldið áfram að eltast við drauminn og varð hún á sama ári sú yngsta í sögunni sem vann bandaríska meistaratitilinn á leirvelli í flokki tólf ára og yngri.

Tólf ára vann Gauff Junior Orange Bowl, mót sem þátttakendur eru átján ára og yngri og varð með því fjórða konan í sögunni til að ná þeim titli fyrir þrettán ára afmælisdaginn ásamt Steffi Graf (1981), Monica Seles (1985) og Jennifer Capriati (1986). Samanlagt unnu þessar þrjár 34 risatitla síðar meir á ferlinum.

Fjórtán ára var hún orðin efst á styrkleikalista heimsins meðal táninga og búin að vinna unglingamótið á Opna franska meistaramótinu. Það var því aðeins tímaspursmál hvenær hún myndi mæta á sitt fyrsta atvinnumannamót sem kom fljótlega eftir fjórtán ára afmælisdaginn.

Tveimur mánuðum eftir fjórtán ára afmælisdaginn var Gauff komin í undankeppni fyrir Opna bandaríska meistaramótið í tennis en féll úr leik strax í fyrstu umferð. Ári síðar vann Gauff sinn fyrsta WTA-titil sem er virtasta mótaröð tennisheimsins ásamt Paige Hourigan í tvíliðaleik.

Venus þakkar Gauff fyrir leikinn síðasta sumar
fréttablaðið/getty

Gauff skaust fram á sjónarsviðið sem ein efnilegasta tenniskona heimsins síðasta sumar þegar henni tókst að vinna sér þátttökurétt á Wimbledon-mótinu með því að slá út Aliona Bolsova sem var í 92. sæti heimslistans og Greet Minnen sem var í 128. sæti heimslistans.

Með því varð táningurinn meðal yngstu keppanda í sögu Wimbledon mótsins, fimmtán ára og þriggja mánaða gömul. Í fyrsta leik mætti hún Venus Williams, annarri af Williams systrunum sem Gauff hefur aldrei farið leynt með að hún hafi litið upp til þegar hún var að stíga fyrstu skref sín í tennis.

Venus reyndist lítil fyrirstaða fyrir Gauff sem vann bæði settin og sendi Venus heim af mótinu. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan átti Gauff erfitt með að ráða við tilfinningarnar af kæti eftir að hafa slegið út Venus en á sama tíma var hún þakklát og þakkaði Venus fyrir framlag sitt til tennisíþróttarinnar þegar þær ræddu saman eftir leik.

Gauff trúði því varla að hún væri að senda Venus Williams heim af Wimbledon mótinu
fréttablaðið/getty

Gauff var hvergi hætt því hún átti eftir að slá út Magdaléna Rybáriková og Polona Hercog á leið sinni í 32-liða úrslitin. Viðureign hennar gegn Simona Halep, verðandi meistara, var færður á aðalvöll Wimbledon mótsins og var metfjöldi sem fylgdist með því þegar Halep batt enda á ævintýri Gauff.

Á næsta risamóti var það Naomi Osaka sem sló út Gauff í 64-manna úrslitum á Opna bandaríska meistaramótinu, þáverandi handhafi Opna ástralska meistaratitilsins og efsta kona heimsins á heimslistanum.

Gauff náði að enda árið á jákvæðu nótunum því hún varð yngsta konan í sextán ár til að vinna WTA-titil í einstaklingskeppni síðasta haust og komst hún meðal hundrað efstu á styrkleikalistanum fyrir árslok.

Hún byrjar árið vel því eftir að hafa gert út um vonir Venus Williams í fyrstu umferð Opna ástralska mótsins og sent Sorana Cîrstea heim í annarri umferð fékk Gauff annað tækifæri gegn Osaka og nú hafði Gauff betur.

Osaka var í þriðja sæti heimslistans í tennis fyrir leikinn í nótt og varð Gauff því yngsta konan í 28 ár til að vinna leik gegn einni af efstu fimm á styrkleikalistanum þegar hún komst áfram í 32-manna úrslitin þar sem Zhang Shuai eða Sofia Kenin bíða Gauff.

Kvennatennis virðist vera á ákveðnum tímamótum. Serena Williams sem hefur unnið 23 risatitla og hefur tvívegis verið handhafi allra fjögurra risatitlanna á sama tíma féll úr leik í 64-liða úrslitum í nótt hefur ekki unnið risatitil í þrjú ár eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn ár um haustið 2017.

Serena sem er langefst á lista yfir tekjuhæstu tenniskonur frá upphafi vann fyrsta titil sinn á dögunum yfir höfuð og hefur komist í úrslit á risamótunum en á eftir að landa 24. meistaratitlinum. Á sama tíma hefur hún verið að berjast við smávægileg meiðsli og hreinlega spurning hvort að hún nái aftur fyrri styrk.

Venus sem er næst tekjuhæst hefur þurft að vera í skugga systur sinnar um árabil og aðeins komist tvisvar í úrslit á risamóti undanfarin ellefu ár. Venus fagnar fertugsafmæli sínu á þessu ári og er á hraðferð niður styrkleikalistans í heiminum.

Maria Sharapova sem er þriðja tekjuhæsta konan frá upphafi og var lengi vel helsti keppinautur Serenu hefur aðeins einu sinni komist í sextán liða úrslit á einu af risamótunum fjórum undanfarin fjögur ár og virðist vera á sömu leið og Venus Williams.

Þá var Opna ástralska meistaramótið síðasta risamót hinnar dönsku Caroline Wozniacki sem vann fyrsta og eina risatitil sinn á Opna ástralska meistaramótinu fyrir tveimur árum síðan.

Sviðið er því opna fyrir nýrri stjörnu eftir einokun Serenu Williams undanfarinn áratug.