Spá Jóns Sveinssonar, þjálfara Bestu deildar liðs Fram í knattspyrnu karla fyrir HM í Katar hefur vakið töluverða athygli en kalla má spá Jóns nær fullkomna. Jón var einn af álitsgjöfum Sögur útgáfa ehf. sem gefur út bók Illuga Jökulssonar sem fjallar um hetjur HM í knattspyrnu og kom út núna í haust.
Í bókinni er fjallað um heimsmeistarakeppnina í Katar sem lauk fyrir viku síðan en í bókinni er einnig fjallað heilmikið um fyrri hetjur HM og mögulegar hetjur framtíðarinnar í helstu landsliðum.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar fengu forráðamenn Sögur útgáfur ehf nokkra álitsgjafa til þess að stilla upp sínum draumaliðum með sínum gömlu og nýju hetjum og segja okkur við hverju fólk mætti búast við á HM í Katar.
Meðal þeirra sem þar sátu fyrir svörum voru íþróttablaðamaðurinn Víðir Sigurðsson, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Gummi Ben, Arnar Gunnlaugs, Óli Kristjáns og Margrét Lára.
Skemmst er frá því að segja að einn álitsgjafanna, þó ekki neinn af ofangreindum, sá greinilega fyrir hvernig þetta mót spilaðist. Það hafi aðeins einn spádómur þess álitsgafa verið fjarri lagi, allt annað sé eftir bókinni.
Sá álitsgjafi reyndist knattspyrnuþjálfarinn Jón Sveinsson, þjálfari Bestu deildar liðs Fram.
Maður mótsins?
- Hann spáði því að Lionel Messi, leikmaður Argentínu yrði valinn leikmaður mótsins. Það raungerðist
Markakóngur?
- Jón spáði því að Kylian Mbappé yrði markakóngur mótsins. Mbappé varð markakóngur mótsins með átta mörk skoruð.
Hver kemur á óvart?
- Jón spáði því að Jude Bellingham, ungur miðjumaður enska landsliðsins myndi koma á óvart. Bellingham var einn af ljósu punktunum í liði Englands á mótinu og vakti töluverða athygli.
Hvaða lið munu leika í úrslitaleiknum og hvernig fer hann?
- Jón spáði því að Argentína og Frakkland myndu mætast í úrslitaleiknum og að Argentína myndi bera sigur úr býtum, 3-2. Argentína bar sigur úr býtum á mótinu og varð heimsmeistari, þó eftir leik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni.
Eina spá Jóns sem var fjarri lagi var spá hans um að Serbía myndi komast í undanúrslit mótsins. Serbar féllu úr leik eftir riðlakeppnina.
