Michael Johnson, fyrrum spretthlaupari og handhafi fjögurra gullverðlauna á Ólympíuleikunum, segist hafa þurft að læra að ganga á nýjan leik eftir að hafa fengið heilablóðfall árið 2018.
Læknar töldu það nánast óhugsandi að Johnson, sem er goðsögn meðal spretthlaupara, myndi ná takmarki sínu um að geta gengið á nýjan leik en það tók hann aðeins tvo mánuði að hrekja á brott þær efasemdaraddir.

,,Ég tel að það hafi gefið mér gott forskot og góðan grunn að hafa verið atvinnu íþróttamaður þegar að endurhæfingin hófst," segir Johnson í hlaðvarpsþættinum Performance People.
Leiðbeiningarnar frá iðjuþjálfurum hafi hann náð að tengja við leiðbeiningar þjálfara síns frá spretthlaupara ferlinum.
,,Læknarnir vissu ekki hvort ég myndi labba á nýjan leik en ég sagði við eiginkonu mína að ég myndi ná mér að fullu."
Nú getur Johnson stundað áhugamál sín á borð við hjólreiðar, róður og hlaup en viðurkennir að það hafi þurft mikla erfiðisvinnu til.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Michael Johnson hér fyrir neðan: