Nas­car öku­maðurinn Jordan Ander­son slapp heldur betur með skrekkinn þegar eldur kom upp í keppnis­bíl hans á Talla­dega Super­speedway síðast­liðinn laugar­dag. Jordan hlaut annars stigs bruna á and­liti og líkama er hann kom sér út á brennandi bif­reiðinni á ferð. Hann er þakk­látur fyrir að vera á lífi.

Mynd­band af at­vikinu má sjá á sam­fé­lags­miðlum en sjálfur segir Jordan að um sé að ræða hræði­legasta at­vik sem hann hefur upp­lifað á keppnis­ferli sínum.

Það var á ní­tjánda hring keppninnar á laugar­daginn sem eld­glæður tóku að sjást teygja sig undan bílnum. Bíllinn tók síðan að renna um brautina og tók stefnu að öryggis­vegg.

Skömmu áður en hún lenti á öryggis­veggnum mátti sjá Jordan koma sér út um glugga­op bíl­stjóra­megin. Hann hefur nú gefið út yfir­lýsingu eftir slysið:

„Ég er svo þakk­látur fyrir allar bænirnar og stuðninginn. Ég hef, á mínum ferli, verið í góðum höndum lækna og hjúkrunar­fræðinga á vegum Nas­car og það er engin spurning að guð var vakandi yfir mér í gegnum þetta at­vik. Þetta er hræði­legasta at­vik sem ég hef lent í á mínum keppnis­ferli," segir meðal annars í yfir­lýsingu Jordan sem ein­beitir sér nú að endur­hæfingu.