Rafa Nadal og Novak Djokovic, tveir af bestu tennisköppum allra tíma, komu rússneskum keppinautum sínum til varnar og furðuðu sig á ákvörðun Wimbledon að banna Rússum og Hvít-Rússum að taka þátt í sögufrægasta móti tennisíþróttarinnar.

Mótshaldarar á Wimbledon tilkynntu á dögunum að ákveðið hefði verið að banna öllum Rússum og Hvít-Rússum að taka þátt vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Það kemur í veg fyrir að margir af bestu tennisleikmönnum heims, þar á meðal Daniil Medvedev sem var efsti maður heimslistans þegar innrás Rússa hófst, geti tekið þátt.

„Stríðið er ekki þeim að kenna. Ég finn til með þeim því þetta eru ákvarðanir sem eru teknar af mótshöldurum í Wimbledon en ekki bresku ríkisstjórninni,“ sagði Nadal og bætti við að leikmenn myndu kannski skipuleggja mótmæli.

Djokovic sagðist sjá líkindi með ákvörðun Wimbledon og ákvörðun ástralskra stjórnvalda að vísa honum úr landi eftir að hafa falsað undanþáguheimild frá bólusetningarkröfu.

„Þetta er ekki það sama en það er margt líkt með þessum ákvörðunum og ég skil að þau séu pirruð. Ég er á móti þessari ákvörðun enda finnst mér hún óréttlát.“