Augu flestra sem fylgjast með Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu, sem fer fram í Katar þessa dagana, beinast að leik kvöldsins þar sem England og Bandaríkin mætast í 2. umferð riðlakeppninnar. Mikil spenna er fyrir leiknum, sér í lagi í Bandaríkjunum og í fjölmiðlum Vestanhafs eru ein óvæntustu úrslit í sögu HM rifjuð upp í dag.

Það hefur verið nóg um óvænt úrslit á HM í Katar til þessa. Stórar knattspyrnuþjóðir á borð við Argentínu og Þýskaland hafa misstigið sig harkalega og vonast Bandaríkjamenn til þess að slíkt hið sama gerist í kvöld í leik Bandaríkjanna gegn Englandi.

Sagan sýnir að Bandaríkin geta náð í úrslit gegn Englandi og sannast það meðal annars í leik sem leikinn var á HM 1950.

Leikur Bandaríkjanna og Englands á HM 1950 í Brasilíu eru talin með óvæntustu úrslitum í sögu keppninnar. Stjörnu prýtt lið Englands mætti þar liði sem meðal annars var skipað uppvaskara og bréfbera.

Fyrir framan um 10 þúsund manns tókst Bandaríkjamönnum að sigla heim 1-0 sigri, öllum að óvörum.

Úrslitin eru rifjuð upp á vef CNN í tilefni dagsins en öldin er önnur núna og aðeins atvinnumenn í liði Bandaríkjanna sem gæti strítt Englendingum.

Englendingar koma hins vegar með sjálfstraustið í botni eftir sinn fyrsta leik á HM í Katar sem endaði með 6-2 sigri á Íran, á sama tíma geta Bandaríkjamenn tekið með sér jákvæða punkta úr 1-1 jafntefli sínu gegn Wales.

Leikur Englands og Bandaríkjanna hefst klukkan 19:00 í kvöld.