Laugavegshlaupið var haldið í tuttugasta og sjötta skiptið í gær. Um 650 manns voru skráðir í hlaupið sem hefst í Landmannalaugum og endar í Þórsmörk.

Laugavegshlaupið er 55 kílómetra utanvegahlaup. Göngugarpar eru venjulega 4 daga á leið sinni um Langaveginn en allra hörðustu hlaupararnir fara leiðina á 4 til 5 klukkustundum.

Arnar Pétursson var með besta tíma dagsins í gær, en hann hljóp á tímanum 4:04:53. Í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur segir að Arnar afi lengst hlaupið 26 kílómetra í utanvegshlaupi og var þetta því rúmlega tvöföldun á hans lengsta utanvegshlaupi.

Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í kvennaflokki en hún hljóp á tímanum 4:33:07, sem er nýtt met fyrir kvennaflokkinn. Áður átti hún sjálf metið en hún bætti það um 22 mínútur.

Andrea varð í fyrra fysta konan til að hlaupa leiðina á undir fimm klukkustundum, eftir hlaupið í gær er hún enn eina konan sem tekist hefur það.

Silja Úlfarsdóttir, upplýsingafulltrúi ÍBR, sagði björgunarsveitir hafa rutt leiðir fyrir hlaupið þegar Fréttablaðið ræddi við hana á föstudaginn.

Sökum slæmrar spár var bætt þá hluti sem hlauparar þurftu að hafa í meðförum við upphaf hlaupsins. Síðustu ár hefur verið krafist að hlauparar hafi flautu, álteppi og 112 vistað í símann. Í ár var hins vegar bætt jakka við þennan lista. Silja sagði það vera vegna veðursins sem spáð var fyrir hlaupið.

„Veðrið sýndi svo sínar bestu hliðar í hlaupinu og hlauparar töluðu um fínar hlaupaaðstæður,“ segir í tilkynningu frá ÍBR sem barst eftir hlaupið.

Arnar Pétursson var að taka þátt í Laugavegshlaupinu í fyrsta skiptið. Hann hafði lengst hlaupið 26 kílómetra í utanvegshlaupi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Keppendur þurfa að þvera á til þess að komast á leiðarenda.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Þrátt fyrir strembna leið hlupu keppendur með bros á vör.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Áin hefur eflaust verið köld en veðrið var betra en skipuleggjendur áttu von á.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir lét ána ekki stöðva sig.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Fyrir helgi var staðan svona á Laugaveginum. Björgunarsveitarmenn bjuggu til þrep sem keppendur notuðu til að komast yfir mesta snjóinn.
Mynd/Facebook síða Laugavegs - Ultra marathon