Þegar Bjarni Jóhannsson tók við þjálfun karlaliðs Vestra í knattspyrnu haustið 2017 hafði liðið hafnað í níunda sæti 2. deildar og nú þremur árum síðar er liðið í sjöunda sæti 1. deildar þegar tvær umferðir eru eftir. Það má því með sanni segja að Bjarni skilji eftir sig gott bú þegar hann skilur við Vestfirðinga enda mátti lesa úr tilkynningu Vestra um viðskilnaðinn að ósk félagsins hefði verið að halda samstarfinu áfram.

„Ég er búinn að vera fyrir vestan í þrjú ár og það er ágætis tímapunktur núna finnst mér til þess að láta gott heita. Eins og umhverfið er í knattspyrnuþjálfun hér heima þá finnst mér þrjú ár fínn tími til þess að stýra liði. Það var vel tekið á móti mér þegar ég kom vestur og mér hefur liðið mjög vel þau þrjú ár sem ég hef verið hérna.

Okkur hefur tekist að koma liðinu í hóp 20 bestu liða landsins á meðan ég hef verið við störf og ég get ekki verið annað en bara mjög sáttur við það. Sérstaklega í ljósi þeirrar aðstöðu sem Vestri býr við,“ segir Bjarni um ástæðu þess að hann sé að hætta.

Aðstaðan ekkert breyst á tæpum 40 árum

„Það er nú þannig að ég var leikmaður ÍBÍ árið 1982 og aðstaðan fyrir vestan hefur ekkert breyst frá þeim tíma. Gervigrasvöllurinn sem hefur komið síðan þá er handónýtur og það er algjört neyðarúrræði fyrir mig að vera með æfingu á þeim velli. Þá er sami grasflötur og undirlagið er jafnvel verra en það var fyrir hartnær 40 árum síðan.

Aðstaðan hérna er algjörlega óboðleg fyrir þá metnaðarfullu knattspyrnumenn sem hér eru svo ég tali nú ekki um þá sem halda utan um félágið. Sammi [Samúel Samúelsson] og hans menn eru að vinna algjört kraftaverk hérna miðað við efni og aðstæður. Vestfirðingar búa við aðsætður til knattspyrnuiðkunar sem eru þremur áratugum á eftir því sem gengur og gerist hjá öðrum félögum á landinu. Mér finnst vera komin tími til þess að bæjaryfirvöld vakni til lífsins og láti verða af þeim áformum sem hafa verið í burðarliðnum í tæpan áratug. Þeir sem stunda og vinna við knattspyrnuna fyrir vestan eiga það svo sannarlega skilið,“ segir þjálfarinn margreyndi.

„Það er í raun ótrúlegt að á Ísafirði og á fleiri stöðum á landsbyggðinni að þar sé ekki til staðar knattspyrnuhús. Liðin utan af landi eru að dragast aftur úr vegna aðstöðuleysis og því verður að kippa í liðinn eins fljótt og nokkur kostur er. Við sjáum að KA er eina landsbyggðarfélagið sem er í efstu deild og þeirri þróun finnst mér þurfa að breyta. Það er líka erfitt að fá fjölskyldur til þess að búa á stað eins og Ísafirði á meðan aðstaða til íþróttaiðkunar er jafn bágborin og raun ber vitni,“ segir hann.

Verja um það bil 36 klukkustundum í hvern deildarleik

„Sá árangur sem við höfum náð er einnig merkilegur þegar til þess er litið að við verjum um það bil 36 klukkustundum í hvern einasta deildarleik sem við spilum. Þeir strákar sem spila með liðinu leggja alveg ótrúlega mikið á sig til þess að liðinu gangi vel og ég tek hatt minn ofan fyrir þeim. Mér finnst sá kjarni af heimamönnum sem hefur verið hér undir minni stjórn hafa bætt sig töluvert.

Fyrst að þú snýrð upp í hendina á mér og biður mig að taka einn leikmann út fyrir sviga þá myndi ég vilja nefna Friðrik Hjaltason. Hann var ekki fastamaður í liðinu þegar ég tók við en er nú fyrirliði liðsins og lykilleikmaður. Það verður gaman að fylgjast með þróuninni á ferli hans,“ segir Bjarni um liðið sitt.

„Hvað framhaldið varðar þá er það algerlega óráðið. Ég var nú eiginlega kominn á þann stað að hugsa um að láta gott heita þegar starfið hjá Vestra kom upp. Ég hef hins vegar enn ástríðu fyrir knattspyrnu og góða starfsorku. Minn draumur varðandi næsta starf væri að vera hluti af öflugu þjálfarateymi hjá félagi þar sem mikill metnaður væri fyrir því að vinna faglegt starf og stefna til framtíðar væri á hreinu.

Svo er ekkert launungarmál að ég myndi vilja vinna hjá félagi með góða aðstöðu eða þar sem raunveruleg áform eru um að byggja upp almennilega aðstöðu. Við sáum það síðasta haust að félög á borð við Val og Stjörnuna bjuggu til öflug teymi í kringum lið sín þar sem tveir úralsdeildarþjálfarar með mikla reynslu eru í teyminu. Ég væri meira en til í að komast inn í þannig umhverfi,“ segir Bjarni aðspurður um það hvað framtíðin ber í skauti sér.

Vestri hefur halað inn 29 stig í 20 leikjum í 1. deildinni í sumar og situr í sjöunda sæti.
Mynd/Vestri