Körfubolti

„Myndi ekki þora að leggja mikið undir“

Það ræðst í kvöld hvort Haukar eða Valur verður Íslandsmeistari í körfubolta kvenna. Staðan í einvígi liðanna er jöfn, 2-2, en allir leikirnir hafa unnist á heimavelli. Haukar eru deildarmeistarar og því fer oddaleikurinn fram á heimavelli þeirra á Ásvöllum.

Guðbjörg Sverrisdóttir hefur spilað einkar vel í úrslitaeinvíginu. Fréttablaðið/Anton Brink

Það er geggjað að fá oddaleik. Þetta er það sem stelpurnar eiga skilið, að fá að njóta sín í sviðsljósinu. Það er frábært fyrir kvennakörfuna,“ segir Ágúst Björgvinsson, þjálfari karlaliðs Vals, sem hefur lýst leikjum í Domino’s-deild kvenna á Stöð 2 Sport undanfarin ár og þjálfaði lengi í deildinni, þ. á m. bæði Hauka og Val sem mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn á Ásvöllum í kvöld.

Valskonur eru í fyrsta skipti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Ágúst segir frammistöðu liðsins þó ekki hafa komið sér á óvart.

„Valsliðið er rosalega öflugt og vel mannað. Þær eru með mestu breiddina að mínu mati. Þær eru vel þjálfaðar og þekkja sín hlutverk vel,“ segir Ágúst sem hrósar Guðbjörgu Sverrisdóttur, fyrirliða Vals, fyrir hennar framgöngu.

„Hún hefur spilað mjög vel og kannski betur í þessu einvígi en áður. Hún hefur sýnt leiðtogahæfileika og tekið af skarið,“ segir Ágúst. „Ég hef þekkt Guðbjörgu lengi og það lá alltaf fyrir að hún yrði góð í körfubolta. Að mínu mati er hún besti leikmaðurinn í deildinni, á eftir systur sinni [Helenu Sverrisdóttur], eins og hún er að spila í dag.“

Í úrslitaeinvíginu er Guðbjörg með 17 stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar að meðaltali í leik. Helena er hins vegar með þrefalda tvennu að meðaltali í leik fyrir Hauka; 20 stig, 10,5 fráköst og 11 stoðsendingar.

Whitney Frazier hefur átt misjafna leiki í úrslitaeinvíginu. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Aalyah Whiteside, bandarískur leikmaður Vals, hefur verið nokkuð stöðug í úrslitaeinvíginu á meðan landa hennar í liði Hauka, Whitney Frazier, hefur verið upp og ofan.

„Hún hefur verið góð í sigurleikjunum, sérstaklega í síðasta leiknum á Ásvöllum þar sem hún var frábær. En hún hefur alls ekki verið góð á Hlíðarenda. Hún virðist vera stressuð og illa stillt í þessum leikjum á Hlíðarenda,“ segir Ágúst.

Í leikjunum á Ásvöllum í úrslitaeinvíginu er Frazier með 27 stig að meðaltali en aðeins 15,5 stig í leikjunum á Hlíðarenda. Hún getur þó huggað sig við það að hún þarf ekki að spila þar aftur.

Helena Sverrisdóttir þarf að eiga góðan leik fyrir Hauka í kvöld. Fréttablaðið/Valli

Ágúst hrósar varnarleik Vals sem var mjög sterkur í fjórða leiknum á fimmtudaginn.

„Haukar hittu mjög illa en þær tóku kannski skot sem Valur þvingaði þær í að taka. Valskonur stjórnuðu síðasta leik út frá vörninni. Þær lokuðu betur á Helenu án þess að gefa leikmönnum eins og Þóru Kristínu [Jónsdóttur], sem er besta skytta Hauka fyrir utan Helenu, opin skot,“ segir Ágúst.

Aðspurður segir hann að Haukar séu aðeins líklegri í oddaleiknum í kvöld.

„Haukarnir hafa Helenu, þær eru deildarmeistarar og með heimavöllinn. Þær hafa svarað þegar Valur hefur unnið. En þetta er bara einn leikur og þetta er galopið. Þótt ég telji Haukana aðeins sigurstranglegri myndi ég ekki þora að leggja mikið undir,“ segir Ágúst að endingu.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Körfubolti

Stjarnan og Njarðvík unnu fyrstu leikina

Körfubolti

Vals­konur komnar í topp­sæti deildarinnar

Körfubolti

Körfu­bolta­lands­liðin á­fram í Errea næstu þrjú árin

Auglýsing

Nýjast

Ágætis byrjun hjá Arnari og Eiði

Andorra sýnd veiði en ekki gefin

Króatar í basli gegn Aserbaídsjan

Næstu Ólympíu­leikar þeir síðustu hjá Si­mone Biles

Rooney heldur með Man City í titilbaráttunni

Marcus Rashford á heimleið vegna meiðsla

Auglýsing