Cristiano Ronaldo lækkaði virði hlutabréfa Coca Cola um tæp tvö prósent með nokkurra sekúndna gjörningi sem vakti gríðarlega athygli. Björn Berg Gunnarsson segir þetta til marks um þau áhrif sem stórstjörnur hafa á afkomu stórfyrirtækja.

Uppátæki portúgalska knattspyrnumannsins Cristianos Ronaldo á blaðamannafundi í kringum leik portúgalska liðsins í lokakeppni Evrópumótsins, þar sem hann færði Coca Cola flöskur sem stillt hafði verið upp fyrir framan hann og hvatti áhorfendur til þess drekka vatn í stað kóks, vakti alheimsathygli.

Hvatning Ronaldos varð til þess að virði hlutabréfa Coca Cola lækkaði um tæp tvö prósent eða um 500 milljarða íslenskra króna. Þetta sýnir svart á hvítu áhrif stórstjarna og annarra áhrifavalda á afkomu fyrirtækja.

„Það er alveg klárt mál að uppátæki Ronaldos hefur bein áhrif á hlutabréfaverð Coca Cola og það er mjög athyglisvert. Þess ber hins vegar að geta að það er ekkert óeðlilegt að hlutabréfaverð Coca Cola sveiflist á milli daga, það gerist reglulega og ekki er víst að þetta hafi marktæk áhrif til lengri tíma.

Aftur á móti er það eftirtektarvert hversu mikil áhrif stórstjörnur hafa og hversu fyrirtæki eru berskjölduð fyrir því sem þær ákveða að gera,“ segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar Íslandsbanka.

Fyrirtækin eru berskjölduð

„Það má ekki gleyma því að þetta er ekki bara einhver stórstjarna. Þetta er Ronaldo, sem er með um það bil hálfan milljarð fylgjenda á samfélagsmiðlum og er gríðarlega stór stjarna með stuðningsmenn sem taka hann mjög alvarlega. Það að hann geri þetta með jafn skýrum hætti og á jafn stóru sviði, gerir þetta enn áhrifaríkara en ella.

Það er fróðlegt að sjá að nokkurra sekúndna gjörningur Ronaldos, hvort sem hann var fyrir fram ákveðinn eða ekki, hafi svona mikil áhrif. Þó þetta veki óneitanlega athygli á vörumerkinu, sem í sjálfu sér getur verið jákvætt, er ekki útilokað að fylgjendur hans og aðdáendur taki þessu sem skýrum skilaboðum,“ segir Björn Berg.

„Þarna sjáum við líka ástæðu þess að fyrirtæki eru í meira mæli að nota áhrifavalda til þess að auglýsa vörur sínar. Það hefur bein áhrif á fólk að sjá hvaða vörur stórstjörnur segjast velja frekar en aðrar. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem stórstjörnur hafa áhrif á það hvernig stórfyrirtækjum vegnar til skamms tíma litið.

Coca Cola brást hárrétt við

Viðbrögð Coca Cola, að senda út hófstemmda yfirlýsingu, sem var afar innihaldsrýr, sýnir að fyrirtækið ætlar sér ekki í þennan slag, enda lítið upp úr því að hafa. Það væri alls ekki þeim til framdráttar að hjóla í Ronaldo eða setja fram á sjónarsviðið einhverja aðra stórstjörnu sem mærir vöru þeirra í andstöðu við portúgölsku fótboltahetjuna.

Þeir munu bara nota þá taktík held ég að láta þetta atvik gleymast og vonast til þess að þetta hafi bara verið stormur í kókglasi og hluthafar tapi ekki á þessu. Bréfin hafa jú hækkað síðan þá, þannig að tap hluthafanna verður ekki jafn mikið og fram kom í fyrstu fréttum fjölmiðla um málið.

Þetta sýnir okkur þó áhrifamátt stórstjarnanna. Svona dæmi styrkja væntanlega enn frekar samningsstöðu þeirra við gerð auglýsingasamninga og sýna fyrirtækjum hve gífurleg áhrif skærustu stjörnurnar hafa. Samstarf við slíka aðila getur eðlilega haft mikil áhrif á fjárhag fyrirtækja,“ segir sérfræðingurinn um fjármál í íþróttum.

Ronaldo hefur áður lýst yfir óánægju sinni með gosneyslu elsta sonar síns, Cristianos yngri, en hann var um tíma eitt af andlitum Coca Cola.