Thomas Müller verður ekki með liði Bayern í leikjunum gegn Liverpool í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir að hann var í dag dæmdur í tveggja leikja bann fyrir brottvísunina gegn Ajax í lokaumferð riðlakeppninnar.

Atvikið átti sér stað undir lok leiksins þegar Müller sá ekki Nicolas Tagliafico þegar hann reyndi að taka boltann niður og sparkaði í hausinn á argentínska bakverðinum.

Müller var vísað af velli enda þurfi að sauma saman andlitið á Tagliafico og var því ljóst að hann myndi að minnsta kosti missa af fyrri leiknum gegn Liverpool í 16-liða úrslitunum.

Nú er hinsvegar ljóst að hann mun missa af báðum leikjunum eftir að aganefnd UEFA dæmdi hann í tveggja leikja bann fyrir brotið.

Hann mun því missa af báðum leikjum Bayern og Liverpool í 16-liða úrslitunum.