Jose Mourinho á von á því að næsti leikur Chelsea verði sá síðasti sem Eden Hazard leikur fyrir félagið í ljósi áhuga Real Madrid á Belganum.

Chelsea mætir Arsenal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á miðvikudaginn þar sem Hazard og Chelsea geta unnið keppnina í annað sinn á síðustu sex árum.

Jose Mourinho sem vann með Hazard í tvö og hálft ár hjá Chelsea á ekki von á því að Hazard leiki listir sínar á Brúnni á næsta ári.

„Það lítur út fyrir að þetta verði síðasti leikur Hazard í bláu treyjunni. Hann er búinn að vera mikilvægur hluti í velgengni Chelsea undanfarinn áratug og hann mun líkt og alltaf vera góður í úrslitaleiknum. Hann vill yfirgefa Chelsea með titli áður en hann heldur til Real Madrid.“

Belgíski sóknarmaðurinn hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að leika fyrir Real Madrid og er talið nokkuð víst að hann haldi til Madrídar í sumar.

Hazard á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum í Lundúnum sem setur Chelsea í erfiða stöðu auk þess sem að félaginu er bannað að kaupa nýja leikmenn í sumar.