José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, kveðst afar spenntur fyrir því að komast aftur í daglega rútínu við það að stýra liði sínu á eðlilegri hátt en mögulegt hefur verið undanfarnar vikur vegna kórónaveirufaraldursins.

Mourinho hefur aðstoðað við að færa eldri borgurum ávexti á meðan faraldurinn hefur gengið yfir heiminn en leikvangur Tottenham Hotspur hefur verið notað sem birgðastöð fyrir nauðsynjar á meðan hlé hefur ver á keppni vegna faraldursins.

„Ég sakna fótboltans en það er kannski að orða það þannig að ég sakni þess að heimurinn gangi sinn vanagang. Ég held að það séu flestir sammála mér í því. Fótboltinn er hins vegar stór hluti af minni heimsmynd og af þeim sökum finn ég einna mest fyrir því að boltinn rúlli ekki," segir Mourinho í samtali við Skysports.

„Við verðum hins vegar að vera þolinmóð og ættum ekki að byrja að spila á nýjan leik fyrr en það er öruggt. Ég tel aftur á móti að það sé öllum til heilla að yfirstandandi keppnistímabil verði klárað þegar stjórnvöld telja það óhætt," segir knattspyrnustjórinn sem hefur ekki stýrt leik í sjö vikur.

Tottenham Hotspur var að glíma við meiðsli þriggja lykilleikmanna þegar hlé var gert á deildinni en Harry Kane, Moussa Sissoko og Steven Bergwijn voru allir á meiðslalistanum. Þeir eru að sögn Mourinho á batavegi og gætu náð að spila með liðinu verði ákveðið að spila síðustu níu leiki liðsins í sumar eins og stefnt er að.

Þegar Mourinho var minntur það af blaðamanni Skysports að í dag væru 15 ár síðan Chelsea undir hans stjórn og með Eið Smára Guðjohnsen innanborðs tryggði sér enska meistaratitilinn með sigri gegn Bolton Wanderers gerir Portúgalinn lítið úr þeim tímamótum.

Hann er hins vegar afar hreykinn þegar hann segir frá því að það hafi fallið í hans skaut að elda egg ofan í þjálfarateymi liðsins á meðan útgöngubann hefur verið á Englandi. Mourinho segist vera orðinn sérfræðingur í eggjahræru og aðstoðarmenn hans láti vel af eldamennsku hans.