Portúgalski knattspyrnustjórinn Jose Mourinho segist vera stoltur af því að vera orðaður við Real Madrid og Inter á ný og að hann sé áhugasamur um að snúa aftur til þessara liða.

Mourinho er án starfs eftir að hafa verið rekinn frá Manchester United í desember og hefur verið orðaður við Real og Inter, lið sem hann stýrði áður fyrr.

Hann þykir ákaflega vinsæll hjá Inter eftir að liðið vann þrefalt undir hans stjórn, deild, bikar og Meistaradeild Evrópu. Hjá Madríd bætti Real stigametið í deildinni undir hans stjórn en tókst ekki að vinna Meistaradeild Evrópu.

Real Madrid hefur ekki náð að standa undir væntingum á þessu tímabili þrátt fyrir að hafa skipt um stjóra og gæti forseti félagsins leitað til Mourinho á ný.

„Ef félag hefur áhuga á að fá fyrrum þjálfara eða leikmann aftur, þá var sá aðili að gera eitthvað rétt. Ég fann það þegar ég sneri aftur til Chelsea og það yrði mikill heiður að snúa aftur til Real eða Inter. Ég þekki allt saman hjá þessum félögum.“

Mourinho staðfesti að hann hefði ekki áhuga á því að snúa aftur til heimalandsins eftir að hann var orðaður við Benfica.

„Ég hef ekki áhuga á því að vinna í Portúgal. Besta leiðin til að útkljá þetta er að greina frá því að ég sé ekki valkostur fyrir Benfica og ég hef ekkert rætt við forseta félagsins.“