Forráðamenn knattspyrnufélagsins Lyon freistuðu þess að fá Portúgalann José Mourinho til þess að taka við stjórnartaumunum hjá karlaliði félagins en Sylvinho var látinn taka pokann sinn hjá liðinu í vikunni.

Lyon situr í 14. sæti frönsku efstu deildarinnar eins og sakir standa sem er versti árangru liðsins á þeim tímapunkti sem nú er síðan keppnistímabilið 1995 til 1996.

Brasilíski vinstri bakvörðurinn fyrrverandi Sylvinho sem lék á sínum tíma með Lyon var að stýra aðalliði í fyrsta skipti og ákveðið var að binda endi á frumraun hans.

Í kjölfarið hafði Jean Michel-Aulas, forseti Lyon, samband við Mourinho með það í huga að bjóða honum starfið en Portúgalinn hefur ekki verið í knattspyrnustjórastarfi síðan hann var rekinn frá Manchester United í desember á síðasta ári.

Líkt og þegar Mourinho var boðið að taka við kínverska liðinu Guangzhou Evergrande, Benfica í heimalandi hans, Kína og fleiri landsliðum afþakkaði hann boðið.

Mourinho hugnast betur að starfa á Englandi og hefur hann verið orðaður við að taka við Tottenham Hotspur ef leiðir Mauricio Pochettino og Lundúnarfélagsins skilja. Talið er hins vegar að Laurent Blanc og Arsene Wenger séu næstir á óskalista forráðamanna Lyon.