José Mourinho, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United og fleiri liða, er kominn með nýtt starf.

Portúgalinn mun stýra þætti um Meistaradeild Evrópu á rússnesku sjónvarpsstöðinni RT. Hann vann fyrir RT á meðan HM í Rússlandi stóð í fyrra.

Þátturinn kallast „Á hliðarlínunni með José Mourinho“. Auglýsingu fyrir hann má sjá hér fyrir neðan.

Fyrsti þátturinn fer í loftið 7. mars. Mourinho verður með þáttinn fram yfir úrslitaleik Meistaradeildarinnar 1. júní.

Sextán-liða úrslit Meistaradeildarinnar hefjast annað kvöld. Þá mætir gamla liðið hans Mourinho, Manchester United, Paris Saint-Germain á Old Trafford og Porto sækir Roma heim. Mourinho gerði Porto að Evrópumeisturum 2004. Hann stýrði Inter einnig til sigurs í Meistaradeildinni 2010.

Í síðustu viku fékk Mourinho skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir skattsvik á meðan hann var stjóri Real Madrid. Hann átti einnig athyglisverða innkomu í rússneskan íshokkíleik.