Jose Mourinho skaut léttum skotum á Frank Lampard eftir frumraun Lampard með lið Chelsea sem endaði í 0-4 tapi gegn Manchester United.

Þetta var fyrsti leikur Chelsea undir stjórn Lampard í ensku úrvalsdeildinni og á sama tíma frumraun Mourinho sem sérfræðingur SkySports.

Mourinho hafði orð á því að það hefði komið honum á óvart með valinu á byrjunarliðinu þar sem ungir leikmenn á borð við Mason Mount og Tammy Abraham fengu tækifærið í stað eldri leikmanna sem þekkja þetta svið.

„Manni líður svolítið eins og Chelsea hafi haft möguleikann á því að spila með leikmenn sem þekkja þessar aðstæður betur. Marcos Alonso, N'Golo Kante og Olivier Giroud byrjuðu allir á bekknum. Þótt að Manchester United sé ekki jafn ógnvægilegt og hér áður er þetta samt erfiður staður að koma á. Það vantaði aðeins upp á reynsluna hjá Chelsea þótt að ungu leikmenn liðsins hafi staðið sig vel.“