Brian McClair, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir að José Mourinho ætti að vera jákvæðari. Portúgalinn hefur haft allt á hornum sér í sumar og varla stokkið bros á vör.

„Það er allt í lagi að vera gagnrýninn og ósáttur, Sir Alex Ferguson var það stundum, en síðan komu tímar þar sem hann var hinn kátasti,“ sagði McClair.

„Kannski er Mourinho jákvæður þegar hann er ekki með myndavélarnar á sér en stuðningsmenn United vildu eflaust sjá hann brosa og hlæja endrum og sinnum.“ 

Hinn skoski McClair segir mikinn mun á fasi Mourinhos og Jürgens Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool.

„Liverpool eru erkifjendurnir og stjórinn þeirra brosir og hlær og lítur út fyrir að njóta starfsins sem hann er í,“ sagði McClair sem skoraði 127 mörk í 471 leik fyrir United á árunum 1987-98.