Mikill styr hefur staðið um Manchester United síðustu vikurnar en stuðnings­menn liðsins hafa látið ó­á­nægju sína í ljós í kjöl­far þess að fregnir bárust um að fé­lagið ætlaði að vera einn af stofn­aðilum Ofur­deildarinnar sálugu.

Mót­mælin náðu há­punkti þegar þau komu í veg fyrir að leikur Manchester United og Liver­pool færi fram um síðast­liðna helgi.

Björn Frið­geir Björns­son, einn af þeim sem stendur að hlað­varpinu Rauðu Djöflunum, segir að Glazer­fjöl­skyldan hafi aldrei náð upp trausti og það muni ekki breytast.

„Þetta er auð­vitað bara lang­varandi þreyta á eig­endum sem er að skjótast upp á yfir­borðið í fyrsta skipti síðan fyrir svona ára­tug síðan.

Það eru á­formin um Ofur­deildina sem eru kveikjan að þessum mót­mælum og við­brögð þeirra í kjöl­far þess að þeim plönum var hætt. Þeir sýna enga auð­mýkt og í raun bara ræða ekki við stuðnings­menn á neinn hátt,“ segir Björn Frið­geir, um stöðu mála.

„Þarna kemur enn og aftur í ljós að sú til­finning sem stuðnings­menn Manchester United hafa haft, um að eig­endunum sé ná­kvæm­lega sama um þá, sé á rökum reist.

Þeir búa í Banda­ríkjunum og hafa ekki beðist af­sökunar á þessari á­kvörðun um að vera með í Ofur­deildinni, sem þorri stuðnings­manna í Eng­landi telur hafa verið fá­rán­lega hug­mynd,“ segir Björn enn fremur.

„Eig­endur annarra fé­laga hafa áttað sig á því að vanga­velturnar um Ofur­deildina voru illa í­grundaðar og beðist af­sökunar. Slíkt er hins vegar ekki uppi á teningnum hjá eig­endum Manchester United sem eiga ekkert inni hjá stuðnings­mönnum fé­lagsins.

Það sýnir mikið hversu mikinn stuðning þessi mót­mæli hafa fengið í knatt­spyrnu­heiminum al­mennt, hvað þau eiga mikinn rétt á sér.

Ein­hvern tímann hefði það skapað meiri óróa í bresku knatt­spyrnu­sam­fé­lagi ef stuðnings­menn hefðu komið í veg fyrir að ná­granna­slagur á borð við Manchester United og Liver­pool færi fram,“ segir hann.

„Eig­endurnir hafa tekið rúman einn milljarð punda úr fé­laginu og á­kvarðanir þeirra hvað varðar ráðningu á knatt­spyrnu­stjórum og stjórn­endum og kaup á leik­mönnum hafa ekki sýnt fram á að þeir hafi nokkra fram­tíðar­sýn.

Fé­lagið hefur eytt um það bil þriðja mestu í laun leik­manna, en árangurinn á vellinum fram að þessu tíma­bili hefur ekki verið á pari við það. Þá hefur ekkert verið sett í inn­viði fé­lagsins og sem dæmi þá er mikil þörf á við­haldi á Old Traf­ford,“ segir Björn um stjórnar­tíð Glazer-fjöl­skyldunnar.

„Virði Manchester United á hluta­bréfa­markaði er rúm­lega tveir milljarðar og ég myndi á­ætla að Glazer­fjöl­skyldan setji þriggja milljarða verð­miða á fé­lagið.

Þeir eru í engri þörf fyrir að selja fé­lagið. Ég sé enga fjár­festa kaupa fé­lagið á þessum tíma­punkti. Mót­mælin munu því halda á­fram í það minnsta í vor, en ég býst við að þau verði hóf­stemmdari um næstu helgi og leikur liðsins geti farið fram. Stuðnings­menn virðast ætla að beina sjónum sínum að því að snið­ganga styrktar­aðila fé­lagsins.

Það er eins gott að liðið er með knatt­spyrnu­stjóra sem er vel liðinn. Ole Gunnar Sol­skjær er á réttri leið með liðið. Þetta hefði verið verra ef José Mourin­ho væri enn við stjórn­völinn og liðið væri ekki klárt með sæti í Meistara­deild Evrópu.

Það er rætt um að sekta fé­lagið eða draga af liðinu stig ef mót­mælin halda á­fram. Ég held að það muni ekki stöðva stuðnings­mennina í því að halda á­fram mót­mælum. Kaup á stór­stjörnum í sumar eða ráðning á stjórnar­for­manni, sem verður lík­lega ein­hver ná­tengdur Glazer­fjöl­skyldunni, mun ekki lægja öldurnar. Þeir verða aldrei teknir í sátt sem eig­endur. Ég spái á­fram­haldandi störu­keppni,“ segir Björn.