Mótmælendur í Hong Kong brenndu treyju merkta LeBron James eftir að LeBron gagnrýndi afskipti framkvæmdarstjóra Houston Rockets af deilum Kína og Hong Kong.

LeBron er nýkominn aftur til Bandaríkjanna eftir æfingarferð til Kína þar sem Los Angeles Lakers lék tvo æfingarleiki.

Í aðdraganda leikjanna tísti Daryl Morey, framkvæmdarstjóri Houston Rockets, stuðningsyfirlýsingu til mótmælenda í Hong Kong sem leiddi til þess að fjölmörg kínversk fyrirtæki slitu samskiptum við Rockets og NBA-deildina.

Lengi vel var óvíst hvort að kínversk stjórnvöld eða NBA-deildin myndu aflýsa æfingarleikjunum sem áttu að fara fram í Kína en ákveðið var að leikirnir skyldu fara fram.

LeBron var spurður út í ferðina og tíst Morey og var hann á því að Morey þyrfti að gæta sín betur, hann þekki ekki aðstæður í Kína og þurfi að gæta sín þegar hann setur slíkar yfirlýsingar fram.

Mótmælendur í Hong Kong tóku illa í orð LeBron og brenndu treyju af LeBron í mótmælaskyni í gær.