Stuðningsmenn West Ham mótmældu eignarhaldi David Sullivan og David Gold á félaginu fyrir leik dagsins en þeir keyptu félagið á sínum tíma af Björgólfi Guðmundssyni.

Sullivan og Gold urðu ungir ríkir á því að gefa út klámblöð, klámmyndir og með rekstri kynlífstækjabúða í Englandi. Um tíma ráku þeir 150 búðir í Englandi og voru með 50% hlutdeild á klámblaðamarkað Englands.

Þá þurfti Sullivan að sitja inni á sínum tíma fyrir að hagnast af vændisþjónustu en hann var aðeins 71 dag í fangelsi. Á sínum tíma eignuðust þeir félagið Birmingham og eftir að hafa selt það árið 2009 keyptu þeir West Ham af íslenskum fjárfestingahóp sem Björgólfur stóð fyrir.

Samanlagt eru þeir verðmetnir á 1,6 milljarð breskra sterlingspunda en stuðningsmenn eru ósáttir og saka þá um nísku.

Þegar Gold og Sullivan keyptu félagið lofuðu þeir stuðningsmönnum samkeppnishæfu liði sem myndi taka þátt í Meistaradeild Evrópu en á tíu árum hefur liðið tvisvar komist í Evrópudeildina og ekki unnið einn einasta bikar.