Olís-deild karla hefst í kvöld eftir hálfs árs hlé og verður spennandi viðureign milli tveggja meistarakandídata í lokaleik fyrstu umferðar á laugardaginn þegar Valur og FH mætast.

Þrjú lið eru talin sigurstranglegri að mati spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna en liðin þar á eftir gætu vel blandað sér í baráttuna ef hlutirnir smella rétt næsta vor.

Samkvæmt spánni verða það Valsmenn sem halda áfram góðu gengi frá síðasta tímabili og hampa Íslandsmeistaratitlinum karlamegin og landa með því fyrsta, stóra titlinum undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar. Stærsta spurningarmerkið er markvarslan, eftir brottför Daníels Freys Andréssonar, en Ungverjinn Martin Nagy sem er samningsbundinn Pick Szeged á að leysa stöðu Daníels en liðið fékk góðan liðsstyrk í Tuma Stein Rúnarssyni.

Valsmenn unnu þrettán af síðustu fjórtán leikjum sínum á síðasta tímabili áður en kórónaveiran stöðvaði deildina og eru Valsarar því eflaust þyrstir í Íslandsmeistaratitilinn sem var í augsýn síðasta vor.

Í spánni er búist við því að Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar veiti Val mesta samkeppni. FH mætir með nánast óbreytt lið til leiks og þekkja leikmenn því vel inn á hvorn annan sem gæti reynst dýrmætt fyrstu vikur mótsins.

Á sama tíma hafa breytingar hafa átt sér stað á Ásvöllum. Aron Kristjánsson tók við liði Hauka í vor og er búinn að fá Geir Guðmundsson og Þráin Orra Jónsson heim úr atvinnumennsku, eftir að hafa þurft að horfa á eftir nokkrum lykilmönnum í vor.

Eyjamenn hafa þurft að horfa á eftir nokkrum reynsluboltum sem hafa reynst ÍBV dýrmætir í titlasöfnun undanfarinna ára
fréttablaðið/valli

Mosfellingar mæta til leiks með nýjan þjálfara, Gunnar Magnússon, í von um að binda endi á tuttugu ára bið eftir titli. Gunnar þekkir það vel að landa titlum og Mosfellingar þurfa að komast yfir línuna eftir að hafa oft verið nálægt síðustu ár. Afturelding missti Tuma Stein í Val en sótti vænan liðsstyrk úr Breiðholtinu í hans stað.

Næstu lið eru öll líkleg til að færast ofar í töflunni ef hlutirnir smella rétt hjá ÍBV, Selfossi og Stjörnunni. ÍBV mætir með breytt lið eftir að hafa horft á eftir reynsluboltum þegar lykilleikmenn undanfarinna ára ýmist hættu eða fóru á önnur mið í sumar. Á Selfossi er Halldór Sigfússon tekinn við liðinu, sem er enn Íslandsmeistari. Haukur Þrastarson er farinn til Kielce og þarf Guðmundur Hólmar Helgason að byrja vel á Selfossi.

Þá mætir Stjarnan til leiks með gjörbreytt lið undir stjórn Patr­eks Jóhannessonar. Það mun mikið mæða á Tandra Konráðssyni og Ólafi Bjarka Ragnarssyni, hvernig Stjarnan mætir til leiks .

Lið KA er ákveðið spurningamerki fyrir tímabilið.
fréttablaðið/ernir

Það má ekki miklu muna hvort að Fram eða KA fylgi þessum sjö liðum í úrslitakeppnina, ef marka má spána. Fram skipti um þjálfara og fékk tvo færeyska leikmenn til liðsins, á meðan KA nældi í tvo stóra bita í Ólafi Gústafssyni og Árna Braga Eyjólfssyni. Ef Ólafur helst heill og nær að fara fyrir liði KA, gæti hann ýtt Akureyringum ofar í töflunni.

Líklegt verður að það verði hörð barátta á milli Gróttu, Þórs og ÍR hvaða lið fara niður um deild næsta vor. Grótta og Þór komust upp um deild síðasta vor, en öll þessi lið eru með leikmenn sem eru ólmir í að sanna sig í efstu deild.

Spá fyrirliða, forráðamanna og þjálfara í Olís-deild karla:

 • 1. Valur 374 stig
 • 2. Haukar 354 stig
 • 3. FH 315 stig
 • 4. Afturelding 288 stig
 • 5. ÍBV 260 stig
 • 6. Selfoss 257 stig
 • 7. Stjarnan 251 stig
 • 8. Fram 189 stig
 • 9. KA 181 stig
 • 10. Þór Ak. 119 stig
 • 11. ÍR 113 stig
 • 12. Grótta 107 stig