Formúla 1 mætir til leiks á heimavöll Ferrari á Monza á Ítalíu um helgina og búist er við trylltri stemningu. Heimamenn í Ferrari mæta með bakið upp við vegg og Kristján Einar Kristjánsson, Formúlu 1 sérfræðingur Viaplay og Aron Guðmundsson, íþróttablaðamaður Fréttablaðsins fóru yfir allt það helsta í tengslum við mótaröðina í Íþróttavikunni með Benna Bó.

„Monza er persónulega í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er á þeirri braut sem ég stíg í fyrsta skipti á verðlaunapall í alþjóðlegri keppni og ýmsir hlutar af henni algjörlega geggjaði," segir Kristján Einar fyrrum kappakstursökumaður og nú sérfræðingur Viaplay í tengslum við Formúlu 1.

„Þú kemur inn á brautina og þú finnur að það er einhver andi yfir henni. Alveg sama hvort það sé kappakstur eða ekki. Stemningin á svæðinu er þannig og það er ein ástæðan fyrir því að fullt af íslendingum eru á leið þangað núna.

„Það er alltaf boðið upp á þvílíkan kappakstur á Monza. Ítalirnir horfa á Ferrari sem sitt landslið og stemningin er eftir því," segir Aron Guðmundsson, íþróttablaðamaður Fréttablaðsins.

„Ef við tölum um yfirstandandi tímabil og öll vandræðin sem Ferrari hefur verið í þá í raun og veru skiptir ekki máli hvernig formi Ferrari mætir til leiks um helgina. Ef þú stendur uppi sem sigurvegari í bíl Ferrari á Monza þá kemstu í fyrirheitna landið. Þá ertu þjóðhetja."

Kristján Einar tekur undir og bendir á Charles Leclerc. „Hann er gulldrengur Ferrari því hann vann á Monza. Það mæta svona 200 þúsund manns úr TIFOSI hópi Ferrari á keppnina og stemningin er sturluð. Flottustu myndirnar sem þú sérð í íþróttaheiminum er mynd af Ferrari ökumanni að fagna á verðlaunapallinum á Monza.