Forráðamenn Chelsea og Manchester City tilkynntu í gær að félögin væru hætta við að taka þátt í stofnun Ofurdeildarinnar. Þá lét Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, af störfum hjá félaginu í gær en hann hefur barist fyrir stofnun deildarinnar.

Seinna um kvöldið tilkynntu Arsenal, Liverpool, Manchester United og Tottenham Hotspur að þau ætluðu að fylgja fordæmi Chelsea og Manchester City.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, átti fund með forystumönnum í knattspyrnunni í Bretlandi í gær. Eftir þann fund sagði forsætisráðherrann að bresk stjórnvöld myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra að Ofurdeildin kæmist á koppinn.

„Það kemur allt til greina þegar kemur að því að hindra þessi áform nokkurra eigenda um að búa til lokaðan klúbb elítufélaga. Bæði í gegnum lagasetningu og með því að neita leikmönnum þeirra félaga sem taka þátt í Ofurdeildinni um atvinnuleyfi í landinu,“ segir í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu.

Þau sex félög sem eftir standa af stofnaðilum Ofurfeildarinnar, AC Milan, Atlético Madrid, Barcelona, Inter Milan, Juventus og Real Madrid, sendu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem fram kemur að félögin ætli að halda áformum sínum að setja deildina á laggirnar ótrauð áfram.

Endurskipulagning á fyrirkomulagi deildarinnar muni fara fram næstu daga og vikurnar.