Guðni Bergsson, formaður KSÍ, er vongóður um að hægt verði að halda stóru krakkamótin í fótbolta í sumar þrátt fyrir að afléttingu samkomubanna verði ekki lokið þegar þau eiga að fara fram. Mótin eru bæði mikilvæg upplifun fyrir fótboltakrakkana og stór þáttur í tekjuöflun þeirra félaga sem halda þau.

Mót á borð við Norðurálsmótið í 7. flokki karla á Akranesi, Orkumótið í 6. flokki karla í Vestmannaeyjum, TM-mótið í 5. flokki kvenna í Eyjum, N1-mótið í 5. flokki karla og Símamótið í Kópavogi í yngstu flokkum kvenna eru fastir liðir á fótboltadagatalinu hvert sumar.

Fótboltakrakkar landsins hafa hlakkað til þessara móta og Guðni blés þeim von í brjóst að þau færu fram þrátt fyrir samkomubann þegar hann ræddi við Morgunþátt Rásar 1 og Rásar 2 í morgunsárið. Þar sagði hann samtal fara fram milli KSÍ og heilbrigðisyfirvalda um mögulegar lausnir hvað þessi mót varðar þessa stundina.

„Hvernig þarf þá að tækla viðburði sem eru þá tvö þúsund manns eða jafnvel fleiri. Ég held að þetta snúist allt um að vera með ákveðin sóttvarnaúrræði, að hólfa niður fjölda, eða iðkendur, áhorfendur og þess háttar. Að gæta þess að smithætta verði ekki of mikil með of miklum fjölda,“ sagði Guðni meðal annars í þættinum.