Jón Stefán segir stefnuna hafa verið að festa liðið í sessi í 1. deildinni í fyrra en þegar liðið endaði í þriðja sæti síðasta haust hafi markmiðssetningin breyst fyrir yfirstandandi tímabil.

„Þegar við tókum við á sínum tíma var til staðar kjarni af heimastelpum sem okkur fannst ekki eiga heima í 2. deildinni. Það var því tekin stefna um að fara rakleitt upp í 1. deild á nýjan leik. Það byrjaði reyndar ekki gæfulega þar sem sú stjórn sem réði mig til starfa lét af störfum stuttu eftir að ég tók við liðinu með Guðna. Við tók öflugt fólk sem hefur haldið vel á spöðunum og séð til þess að umgjörðin í kringum liðið er mjög góð. Eftir góðan árangur í 1. deildinni í fyrra settum við okkur það markmið að komast upp í efstu deild á þessu tímabili. Það er frábær tilfinning nú þegar sætið í deild þeirra bestu er í höfn,“ segir Jón Stefán í samtali við Fréttablaðið.

„Við fengum sannkallaða himnasendingu inn í hópinn þegar við fengum Murielle Tiernan til liðs við okkur. Bæði er hún frábær fótboltakona og yndisleg persóna. Það má líkja þessu við þau áhrif sem Lionel Messi hefur á Barcel­ona svo mikilvæg er hún okkar liði. Þess utan er hún frábær í hóp og gefur mikið af sér innan vallar og utan. Hún kom hingað eftir að hafa leikið með Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni. Hér líður henni mjög vel og við erum ofboðslega ánægð með að hún hafi ákveðið að taka slaginn með okkur áfram þrátt fyrir að hafa fengið boð um að leika í úrvalsdeildinni hér heima,“ segir þjálfarinn um Murielle sem hefur skorað 22 af 43 mörkum Tindastóls í deildinni í sumar.

Það sem gerir frammistöðu Murielle innan vallar enn eftirtektarverðari er að hún glímir við slímseigjusjúkdóm sem er arfgengur sjúkdómur sem leggst á lungun hjá henni. Sjúkdómurinn gerir það að verkum að Murielle á erfitt með að vinna í mikilli ákefð og er lengur að endurheimta orku eftir æfingar og leiki. Annar lykilleikmaður í liði Stólanna er markvörðurinn Amber Kristin Michel sem hefur einungis fengið á sig fimm mörk í 15 leikjum í deildinni.

Yngri flokka starfið hefur verið gott hjá Tindastóli undanfarin ár og eitt afsprengi þess er miðjumaðurinn Vigdís Edda Friðriksdóttir sem skoraði níu mörk í 1. deildinni síðasta sumar og gekk í kjölfarið í raðir Breiðabliks. „Við erum með öflugt yngri flokka starf og það eru tveir til þrír leikmenn í hverjum árgangi sem ég sé fyrir mér að muni koma inn í meistaraflokkshópinn. Vanda Sigurgeirsdóttir benti á það að þegar hún var í yngri flokkunum á Króknum hefði hún lengi vel verið eina stelpan sem var að æfa fótbolta í bænum og hún hefði æft með strákunum. Það hefur margt breyst í jákvæða átt í kvennaknattspyrnu á Sauðárkróki síðustu árin sem er algjörlega geggjað að taka þátt í.

Hópurinn hjá meistaraflokki er á besta aldri en leikmenn eru fæddir frá 1995 til 2002. Mamman í hópnum sem er fædd árið 1991 er í barneignarleyfi og hún kemur inn í þetta þegar þar að kemur. Við munum ekki hvika frá þeirri stefnu okkar að leyfa heimakonum að fá tækifæri í meistaraflokki og þær stelpur sem hafa komið okkur á þann stað sem við erum komin á munu fá að sýna sig og sanna í efstu deild. Það er hins vegar ljóst að við þurfum að styrkja liðið fyrir næstu leiktíð, við ætlum ekki bara að vera með í efstu deild. Fyrst við erum búin að vinna fyrir því að spila við hákarlana viljum við synda þar áfram næstu árin,“ segir Jón Stefán.

„Það var algjörlega ólýsanleg tilfinning þegar við tryggðum okkur sætið í efstu deild á Húsavík og ég er í raun enn í skýjunum ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Við höfum lagt hart að okkur til þess að ná ætlunarverki okkar og það var einkar ánægjulegt að uppskera laun erfiðisins. Það sem gerði upplifunina enn magnaðri var að töluverður fjöldi lagði á sig um það bil 200 kílómetra akstur í ekkert spes færð til þess að fagna þessu með okkur.

Það hefur verið góð mæting á leiki hjá okkur í sumar og bæjarbúar eru stoltir af þessu liði. Það eru auðvitað margar heimakonur í liðinu sem gerir það að verkum að fólk finnur fyrir tengingu. Sauðárkrókur er líka mikill íþróttabær og fólk og fyrirtæki í bænum hafa stutt rækilega við bakið á okkur. Vonandi verður áframhald á því,“ segir hann um kvöldið á Húsavík og framhaldið.