Kristján Einar Kristjánsson og Bragi Þórðarsson, voru á yfirsnúningi við að lýsa keppnishelgi Formúlu 1 í Barcelona um helgina. Keppnin er gjarnan talin með þeim viðburðarminnstu á Formúlu 1 tímabilinu en sú varð ekki raunin um helgina. Boðið var upp á hraða, spennu og óvænta atburðarrás og þá kom einnig glögglega í ljós hversu góð samvinna Kristjáns og Braga er.

Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari og ökumaður Red Bull og George Russell, ökumaður Mercedes buðu upp á alvöru baráttu innan brautar. Baráttu þar sem ekkert var gefið eftir en á endanum var það Verstappen sem bar sigur úr býtum í Barcelona.

Hann leiðir nú stigakeppni ökumanna í fyrsta sinn á tímabilinu eftir að Charles Leclerc, ökumaður Ferrari féll úr leik eftir að bilun kom upp í bíl hans.

Á hápunkti baráttu Russell og Verstappen má sjá hvernig Bragi bendir Kristjáni með handahreyfingum hvernig bíll Russell hafi runnið til. Kristján náði meiningu handahreyfinga Braga og það skilaði sér beint í útsendingu til áhorfenda.

Kristján Einar og Bragi halda einnig úti gífurlega vinsælum hlaðvarpsþætti sem heitir Pitturinn og þar eru málin í Formúlu 1 krufin hverju sinni.