„Forsenda - Hugarfar. Forsenda liðsins eða forsenda nýs líf," skrifar Kristbjörg Ingadóttir fyrrum landsliðskona í knattspyrnu og móðir Alberts Guðmundssonar leikmanns Genoa í færslu sem hún birtir á Facebook síðu sinni í gær.
Unnusta Alberts, Guðlaug Elísa deilir færslunni einnig á Instagram síðu sinni og vekur athygli á stöðu mála.
„Atvinnumaðurinn er manneskja, manneskja eins og við öll en samt manneskja sem allir telja sig hafa rétt á að gagnrýna," skrifar Kristbjörg um stöðu mála.
Albert hefur ekki verið í landsliðinu 9 mánuði eftir að Arnar Þór Viðarsson sakaði hann um sýna af sér slæmt hugarfar. Arnar Þór sagði svo í gær að Albert væri ekki til í að vera á forsendum liðsins og væri sökum þess ekki í nýjasta landsliðshópnum.
„Albert hefur í gegnum sinn atvinnumannaferil verið það lánsamur að hafa hingað til verið með þjálfara sem hafa leiðbeint honum. Veitt honum uppbyggilega gagnrýni og fundið leið til þess að hjálpa honum að verða betri leikmaður betri manneskja. Slíkur stuðningur myndar gagnkvæma virðingu og traust.“
„Það að hafa einhvern sem leiðbeinir þér aftur á rétta braut þegar þú ert aðeins á villigötum er ómetanlegt veganesti.“
Kristbjörg rekur svo í færslu sinni að Albert hafi aðeins hitt mánaðar gamalt barn sitt í hálfan sólarhring. Hafi Albert þurft að horfa á fæðingu barnsins í gegnum síma en það fæddist á Íslandi.
„En er forsenda nýs lífs einskis virði í atvinnumannaumhverfi. Atvinnumaður færir oft miklar fórnir og er umhverfið oft ómanneskjulegt," skrifar Kristbjörg og endar pistil sinn á þessum orðum.