Arsenal staðfesti í dag að Henrikh Mkhitaryan yrði ekki í leikmannahóp liðsins í úrslitaleik Evrópudeildarinnar vegna milliríkjadeilu Armeníu og Aserbaídsjan.

Er þetta annar leikur Arsenal í Bakú á þessu tímabili og líkt og fyrr í vetur var tekin ákvörðun um að Mkhitaryan yrði skilinn eftir.

Lýsir Arsenal í tilkynningu yfir vonbrigðum að UEFA hafi valið Bakú sem vettvang úrslitaleiksins í ljósi þess að það komi niður á leikmönnum frá Armeníu.

Kemur fram í tilkynningunni að óttast sé um öryggi Mkhitaryan í Aserbaídsjan og því hafi verið tekin ákvörðun um að hann yrði eftir í Lundúnum.

Arsenal er í leit að fyrsta Evróputitli félagsins í 35 ár eða síðan félagið vann Evrópukeppni bikarhafa árið 1994.

Mkhitaryan var hluti af liði Manchester United sem vann þessa sömu keppni fyrir tveimur árum síðan.