Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu þarf að hafa góðar gætur á Leu Schüller sem og fleiri leikmönnum hjá þýska liðinu þegar liðin mætast í toppslag í riðli 5 í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvellinum á morgun. 

Schüller er markahæsti leikmaður þýska liðsins með fimm mörk í þeim fjórum leikjum sem hún hefur spilað fyrir liðið í undankeppninni, en hún skoraði fjögur markanna í 4-0-sigri liðsins gegn Tékklandi.

Þá skoraði hún annað marka Þýskalands þegar íslenska liðið vann frækinn 3-2-sigur í fyrri leik liðanna í undankeppnninni í Wiesbaden síðasta haust.  

Hún er rúmlega tvítugur framherji sem leikur með Essen í þýsku efstu deildinni og ætti Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins og leikmaður Wolfsburg, því að kannast vel við hana.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er hins vegar markahæsti leikmaður Íslands í undankeppninnar með fjögur mörk og Elín Metta Jensen, Fanndís Friðriksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir koma næstar með þrjú mörk hver. 

Dagný sem verður ekki með í leik liðanna á morgun skoraði tvö marka íslenska liðsins í sigrinum í Þýskalandi, en Elín Metta bætti svo þriðja markinu við.