Í gær barst yfirlýsing frá höfuðstöðum Formúlu 1 liðs Ferrari þar sem tilkynnt var um starfslok liðsstjórans Mattia Binotto hjá liðinu. Binotto er einn af mikilvægu hlekkjum liðsins á bak við titla Michael Schumacher en nú yfirgefur hann liðið
Binotto á yfir að skipa 28 ára starfsferli hjá þessu sigursælasta liði Formúlu 1, hins vegar virðist þolinmæðin á þrotum hjá Ferrari en Bragi Þórðarson, Formúlu 1 sérfræðingur Viaplay og Pittsins telur Ferrari vera að gera mistök
,,Ferrari vann síðast heimsmeistaratitil bílasmiða árið 2008, titil ökumanna árið 2007 og hafa eftir það reynt að vinna fleiri titla en án árangurs við á því sem hægt er að segja að sé erfitt tímabil fyrir liðið.
Nú bregði fyrir sömu gömlu tuggunni frá ítalska risanum.
,,Liðsstjóranum er alltaf kennt um, hann rekinn og einhver annar fenginn inn. Hvað liðið ætlar sér að gera með þessari ákvörðun veit ég ekki en svona vendingar hafa ekki skilað sér áður fyrir Ferrari.
Það eina sem liðið er að gera með þessu er að missa Binotto sem er verkfræðingur í grunninn. Maðurinn sem var yfir véladeild Ferrari þegar Michael Schumacher vann sína titla hjá liðinu.
Ég var aldrei á því að það hefði verið góð ákvörðun fyrir Ferrari að ráða Binotto sem liðsstjóra á sínum tíma en að missa hann alfarið úr liðinu er ekki gott."
Eftir frábæra byrjun á nýafstöðnu tímabili, þar sem liðið var meðal annars orðað við baráttu um titil, lét margt undan.
,,Þetta tímabil hefur verið mjög skrítið fyrir Ferrari vegna þess að liðið mætir til leiks með besta bílinn í upphafi tímabils.
Það er síðan liðið sjálft sem gjörsamlega hendir frá sér möguleika á titli með fjölda mistaka á mörgum sviðum."
Liðið tók vitlausar ákvarðanir hvað varðar keppnisáætlanir, þjónustuhléin fóru forgörðum og þá áttu ökumennirnir sjálfir nokkur mistök.
,,Málið er að við getum bent á svo marga í þessu liði sem hefðu geta gert betur."
Auðvitað eru stuðningsmenn Ferrari brjálaðir yfir því hvernig liðið spilaði úr þessu tímabili eftir þessa byrjun
Með þessari ákvörðun Ferrari erum við eiginlega að sjá þennan kjarna í ítalskri íþróttamenningu, það þarf alltaf einhver að taka ábyrgð á því sem illa fór, verður alltaf einhver að vera rekinn."