Í gær barst yfir­lýsing frá höfuð­stöðum For­múlu 1 liðs Ferrari þar sem til­kynnt var um starfs­lok liðs­stjórans Mattia Binotto hjá liðinu. Binotto er einn af mikil­vægu hlekkjum liðsins á bak við titla Michael Schumacher en nú yfir­gefur hann liðið

Binotto á yfir að skipa 28 ára starfs­ferli hjá þessu sigur­sælasta liði For­múlu 1, hins vegar virðist þolin­mæðin á þrotum hjá Ferrari en Bragi Þórðar­son, For­múlu 1 sér­fræðingur Viaplay og Pittsins telur Ferrari vera að gera mis­tök

,,Ferrari vann síðast heims­meistara­titil bíla­smiða árið 2008, titil öku­manna árið 2007 og hafa eftir það reynt að vinna fleiri titla en án árangurs við á því sem hægt er að segja að sé erfitt tíma­bil fyrir liðið.

Nú bregði fyrir sömu gömlu tuggunni frá ítalska risanum.

,,Liðs­stjóranum er alltaf kennt um, hann rekinn og ein­hver annar fenginn inn. Hvað liðið ætlar sér að gera með þessari á­kvörðun veit ég ekki en svona vendingar hafa ekki skilað sér áður fyrir Ferrari.

Það eina sem liðið er að gera með þessu er að missa Binotto sem er verk­fræðingur í grunninn. Maðurinn sem var yfir véla­deild Ferrari þegar Michael Schumacher vann sína titla hjá liðinu.

Ég var aldrei á því að það hefði verið góð á­kvörðun fyrir Ferrari að ráða Binotto sem liðs­stjóra á sínum tíma en að missa hann al­farið úr liðinu er ekki gott."

Eftir frá­bæra byrjun á ný­af­stöðnu tíma­bili, þar sem liðið var meðal annars orðað við bar­áttu um titil, lét margt undan.

,,Þetta tíma­bil hefur verið mjög skrítið fyrir Ferrari vegna þess að liðið mætir til leiks með besta bílinn í upp­hafi tíma­bils.

Það er síðan liðið sjálft sem gjör­sam­lega hendir frá sér mögu­leika á titli með fjölda mis­taka á mörgum sviðum."

Liðið tók vit­lausar á­kvarðanir hvað varðar keppnis­á­ætlanir, þjónustu­hléin fóru for­görðum og þá áttu öku­mennirnir sjálfir nokkur mis­tök.

,,Málið er að við getum bent á svo marga í þessu liði sem hefðu geta gert betur."

Auð­vitað eru stuðnings­menn Ferrari brjálaðir yfir því hvernig liðið spilaði úr þessu tíma­bili eftir þessa byrjun

Með þessari á­kvörðun Ferrari erum við eigin­lega að sjá þennan kjarna í ítalskri í­þrótta­menningu, það þarf alltaf ein­hver að taka á­byrgð á því sem illa fór, verður alltaf ein­hver að vera rekinn."