Mist Edvardsdóttir leikmaður kvennaliðs Vals í knattspyrnu er með slitið krossband en það er fotbolti.net sem greinir frá þessu. Þar með er ljóst að Mist mun ekki leika knattspyrnu næsta árið um það bil.

Þetta er í þriðja skipti sem Mist slítur krossband á jafn mörgum árum en hún varð fyrir meiðslunum í sannfærandi sigri Vals gegn Keflavík í níundu umferð Pepsi Max-deildarinnar fyrr í þessari viku.

Thelma Björk Einarsdóttir var fjarri góðu gamni í leiknum gegn Keflavík en hún fékk höfuðhögg í jafnteflinu gegn Breiðabliki í leiknum þar á undan.

Valur og Breiðablik eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar með 25 stig eftir níu umferðir.