Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, er þessa dagana staddur í Suður-Afríku þar sem hann hóf keppnistímabilið á næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour.

Haraldur Franklín lék um síðustu helgi á Limpapo-meistaramótinu en það var fyrsta mótið sem henn tekur þátt í frá því í október á síðasta ári.

„Það var frábært að komast aftur á mót en það var smá ryð í mér í upphafi. Ég hef náð að æfa vel í þeirri pásu sem var á mótahaldi en það er allt annað að vera við æfingar en þegar út í mótið er komið.

Þá voru aðstæður á mótinu mjög frábrugðnar því sem ég er vanur. Við vorum á golfvelli sem liggur hátt yfir sjávarmáli og við slíkar aðstæður fer boltinn svona 15 til 20 prósent lengra en á völlum sem liggja ekki svo hátt.

Það tók mig smá tíma að aðlagast þessu og treysta því að boltinn færi jafn langt og raun bar vitni. Þegar ég náði að venjast því og ég komst í betri takt þá gekk þetta bara vel. Það dugði hins vegar því miður ekki til,“ segir Haraldur Franklín sem lék fyrsta hringinn á 75 höggum á Limpapo-meistaramótinu en hann bætti sig um þrjú högg á öðrum keppnisdegi og lék á pari vallarins.

Haraldur Franklín hefur í dag leik á Bain’s Whisky Cape Town Open en það fer fram á Royal Cape vellinum við Höfðaborg í Suður-Afríku.

„Það er öðruvísi áskorun sem bíður okkar á því móti, en sá völlur liggur nálægt sjó og það er spáð þónokkru roki á fyrsta keppnisdeginum en betra veðri dagana þar á eftir.

Nú er bara markmiðið að halda áfram að bæta leik minn og vonandi dugar það til þess að komast í gegnum niðurskurðinn. Það eru frábærar aðstæður hérna í Suður-Afríku og gaman að reyna sig á völlum sem maður hefur ekki prufað áður,“ segir atvinnukylfingurinn.

Á fimmtudaginn í næstu viku spilar Haraldur Franklín síðan á Dimension Data-mótinu sem fram fer á Fancourt-vellinum. Þar með lýkur mótatörninni í Suður-Afríku.

Mótaröðin flytur sig svo um set til Svíþjóðar þar sem tvö mót fara fram annars vegar 13. til 16. maí og hins vegar 19. til 22. maí. Þar mun Guðmundur Ágúst Kristjánsson mæta til leiks en hann er líkt og Haraldur Franklín með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili.

Bjarki Pétursson, úr GKG, og Andri Þór Björnsson, hjá GR, eru einnig með keppnisrétt á þessari mótaröð.

„Það er búið að gefa út skipulag fyrir mótaröðina en með þeim fyrirvara að dagskráin geti breyst út af kórónaveirufaraldrinum. Það er mikið púsluspil að ferðast á milli staða með gildandi sóttvarnareglum. Það er hins vegar klárlega þess virði að leggja það á sig til þess að spila reglulega á mótum,“ segir Haraldur um framhaldið.