Fyrrum samherjar argentínsku knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona, sem lést fyrir sléttum tveimur árum síðan, minntust hann í Doha í Katar í dag þar sem Heimsmeistaramótið í knattspyrnu fer fram þessa dagana.

Maradona er einn besti knattspyrnumaður sögunnar en á sérstöku svæði í Doha í dag, svæði sem tileinkað er suður-amerískri knattspyrnu, heilsaði forseti FIFA Gianni Infantino upp á fyrrum samherja Maradona hjá argentínska landsliðinu sem voru þar samankomnir.

Þrátt fyrir að Maradona hafi haldið yfir á annað tilverustig fyrir tveimur árum síðan lifir minning hans enn fersk í minni argentínsks knattspyrnufólks sem klæðist meðal annars enn treyjum merktum honum.

Richard Giusti, fyrrum samherji Maradona hjá Argentínu segir ekki hægt að bera hann saman við Lionel Messi sem er núverandi stjarna argentínska landsliðsins.

,,Við getum ekki borið þá saman, getum ekki sagt hvor er betri. Þeir eru svo ólíkir, báðir snillingar og báðir frá Argentínu."