Gengi kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu í sumar hefur verið nánast lygilega gott. Eftir að hafa leikið níu leiki á mótinu er liðið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. Blikar hafa skorað 42 mörk í þessum og haldið marki sínu hreinu á fyrri hluta tímabilsins.

Þar með hefur liðið slegið met KR liðsins frá árinu 1997 í fjölda leikja án þess að fá sig mark. Sóknarþríeykið Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir hafa verið iðnastar við kolann í markaskorun liðsins en Berglind Björg hefur skorað 12 mörk, Sveindís Jane átta og Agla María sjö.

Þorsteinn H. Halldórsson skoraði á aðra leikmenn liðsins að gera sig gildandi fyrir framan markið í samtali við fjölmiðla eftir einn sigurleikinn fyrr í sumar. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, vinstri bakvörður Blika, varð við þeirri áskorun Þorsteins þegar hún skoraði tvö marka liðsins í 7-0 sigri gegn Þór/KA í vikunni.

Fyrra markið hennar var einkar glæsilegt en eftir laglega sókn Blika prjónaði Áslaug Munda sig í gegnum þrjá varnarmenn norðanliðsins og skaut boltanum upp í samskeytin. Húsvíkingurinn skoraði svo seinna markið beint úr hornspyrnu.

Kom skemmtilega á óvart að skora tvö mörk

„Ég svo sem tók það ekkert sérstaklega til mín það sem Steini sagði og fyrir mér skiptir engu máli hver skorar á meðan við erum að skora mikið og vinna. Ef ég á að vera hreinskilin þá kom það mér á óvart að setja tvö í þessum leik. Það var hins vegar gaman að rifja upp gamla takta í sóknarleiknum,“ segir Áslaug Munda í samtali við Fréttablaðið.

„Ég spilaði bæði á kantinum og inni á miðjunni með Völsungi þannig að ég var vön að vera framar á vellinum áður en ég kom til Blika. Það vantaði svo bakvörð í einhverjum leik og Steini ákvað að prufa mig þar. Það gekk bara vel og ég er að fíla þessa stöðu. Ég fæ að taka mikinn þátt í sóknarleiknum í þeim leikstíl sem við spilum. Ég er hins vegar alveg klár í að spila framar ef það hentar liðinu,“ segir hún um ástæðu þess að hún var færð aftar á völlinn.

„Mér finnst liðið okkar vera sterkara en í fyrra, bæði þéttara og betur drillaðra varnarlega og með fleiri vopn í sóknarleiknum með tilkomu Sveindísar sem hefur mikinn hraða og Rakelar [Hönnudóttur] sem kemur með mikil gæði inn í liðið. Við vorum að sjálfsögðu ekki með það sem markmið að halda hreinu í svona mörgum leikjum en það er bara skemmtilegur bónus,“ segir Áslaug um gengi liðsins það sem af er sumars.

Síðasta haust fékk Áslaug Munda smjörþefinn af atvinnumennsku þegar henni var boðið að æfa með franska stórliðinu PSG. Hún segir það klárlega stefnuna að leika erlendis á einhverjum tímapunkti á ferlinum.

Stefnir á að geta einbeitt sér að fullu að fótbolta

„Það er klárlega á stefnuskránni hjá mér að spila sem atvinnumaður og geta einbeitt mér að fullu að fótboltanum í einhvern tíma. Nú er ég hins vegar mjög ánægð hjá Breiðabliki og umgjörðin þar og allt í kringum félagið er í toppmálum. Það þarf að velja vel til þess að finna erlent lið sem hentar mér vel og nær að trompa Blika hvað þjálfun, aðstöðu og utanumhald varðar.

Mig langar núna að halda áfram að spila vel með Breiðabliki og festa mig í sessi hjá landsliðinu. Það eru forréttindi að fá að æfa með og læra af þeim reynslumiklu og frábæru leikmönnum sem þar eru,“ segir þessi metnaðarfulla knattspyrnukona sem lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir um það bil ári síðan.

Auk þess að vera í landsliðsklassa og á hraðri uppleið í knattspyrnunni er Áslaug Munda góður námsmaður. Fékk hún sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í námi og knattspyrnu þegar hún útskrifaðist frá afrekssviði Menntaskólans í Kópavogi í lok júní. Hún útskrifaðist með meðaleinkunnina 9,27 þaðan.

Í haust ætlar Áslaug Munda að hefja nám í lífeindafræði í Háskóla Íslands en hún segir það ekki fýsilegan kost að hefja nám erlendis í þeim aðstæðum sem eru í heiminum þessa stundina vegna kórónaveirufaraldursins.