Milwaukee Bucks og Orlando Magic áttu að mætast í fimmta leik liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í kvöld. Leikmenn Milwaukee neituðu að spila vegna réttindabaráttu svarta og leiknum var frestað.

Sögusagnir höfðu verið á kreiki að einhver lið myndu sniðganga leik í úrslitakeppninni vegna atburðanna í Bandaríkjunum á sunnudag.

Doc Rivers þjálfari LA clippers ræddi við blaðamenn eftir leik Clippers og Mavericks í gær. Viðtalið hreyfði mikið við leikmönnum deildarinnar og fjölda annarra. Í ræðunni sagði hann m.a. „Við höldum áfram að elska þetta land, en þetta land elskar okkur ekki til baka."

Miklar umræður mynduðust vegna málsins á Twitter í kvöld.

Adrian Wojnarowski, sem er einn virtasti NBA-blaðamaðurinn, greinir frá því á síðu sinni að leikmenn Milwaukee hafi tekið þessa ákvörðun eftir að Jacob Blake var skotinn sjö sinnum í bakið á sunnudaginn. Þá segir Wojnarowski einnig að öllum leikjum NBA deildairnnar í kvöld hafi verið frestað.