Milos Milojevic kom Mjällby upp í sænsku efstu deildina í knattspyrnu karla í haust en þegar hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu fyrir tæpu einu og hálfu ári var liðið í C-deildinni. Þrátt fyrir þennan góða árangur og að fram undan væri að leika í efstu deildinni ákvað Milos að yfirgefa herbúðir Mjällby.

Magatilfinningin hjá Milos var þannig að Mjällby myndi ekki gefa í hvað varðar umgjörð og fagmennsku í kringum liðið. Hann segir ekki rétt sem stjórn félagsins hafi látið hafa eftir sér að viðskilnaðurinn snúist um að ekki hafi tekist að semja um launakjör sín. Það sé erfið ákvörðun að yfirgefa leikmenn og stuðningsmenn Mjällby sem hann hafi átt gott samstarf við.

„Þegar ég framlengdi samning minn við Mjällby síðasta sumar þá var ákvæði þar um að endursamið yrði um kaup og kjör ef ég kæmi liðinu upp í efstu deild. Markmiðið var hins vegar að halda liðinu í B-deildinni og komast í deild þeirra bestu á næstu fjórum árum. Eftir að ég stýrði liðinu upp í efstu deild í fyrstu tilraun þá settumst við að samningaborðinu og ástæðan fyrir því að ég lét af störfum snérist ekki um launamálin mín," segir Milos í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta snérist aðallega um það að stjórn Mjällby var ekki tilbúinn að ganga nógu langt í að bæta umgjörðina í kringum liðið. Ég óskaði eftir því að ráðinn yrði fitnessþjálfari í þjálfarateymið en þeir voru tregir í að borga þau laun sem sá aðili sem ég var búinn að vinna fór fram á. Það voru hins vegar laun sem voru alls ekki há. Ég fékk þá tilfinningu að ég myndi ekki fá þær umbætur í gegn sem nauðsynlegt var og því ákvað ég að segja skilið við félagið," segir hann enn fremur.

„Mér fannst ég fá þetta staðfest þegar ráðnir voru þjálfarar inn í akedemínua sem voru tengdir stjórnarmönnum félagsins í stað þess að ráða hæfari menn þangað. Akademían hefur verið í mikilli framför eftir að ég kom hingað og U-17 og U-19 liðin eru komin upp í efstu deild. Ég hefði viljað sjá gefið í hvað fagmennskuna varðar þar til þess að halda áfram að fá góða og vel þjálfaða leikmenn upp í aðalliðið," segir þessi metnaðarfulli þjálfari.

Hefur hafnað félögum í Svíþjóð og Serbíu

„Í kjölfar þess að síðasta tímabili lauk fann ég fyrir áhuga á starfskröftum mínum en ég pældi ekkert í því. Ég var bara með hugann við það að athuga hvort ég ætti samleið með Mjällby áfram. Nú þegar ljóst er að svo verður ekki fer ég í það að skoða mín mál. Ég er þannig gerður að ég get ekki verið lengi án þess að hafa þjálfarastarf en ég mun samt ekki hoppa á hvað sem er bara til þess að hafa vinnu. Stefna og framtíðarplön félagsins verða að heilla mig," segir Milos.

„Forráðamenn Örgryte sem leikur í sænsku B-deildinni buðu mér að taka við liðinu en ég var ekki spenntur fyrir því. Mig langar að athuga hvort að ég geti fengið starf í efstu deild hér í Svíþjóð eða annars staðar. Svo hafa þrjú serbnesk lið spurst fyrir um hvort ég hafi áhuga á að taka við þar. Þar eru hins vegar aðstæður og innra skipulag þeirra félaga með þeim hætti að mig langar ekki að fara þangað," segir hann aðspurður um hvort hann hafi fengið tilboð í hendurnar um þjálfarastarf.

Sænskir fjölmiðlar hafa orðað Milos við Malmö sem vantar aðstoðarþjálfara. „Þessar sögusagnir um Malmö koma líklega þannig til að ég þekki vel til hjá Malmö eftir að hafa fengið leikmenn þaðan á láni til Mjällby og þeir hafa verið ánægðir með samstarfið við mig. Það væri klárlega spennandi að starfa hjá jafn stóru félagi og Malmö er og ég set það ekkert fyrir mig að gerast aðstoðarþjálfari ef hlutverkið sem mér er ætlað heillar mig.

Fyrsti kostur væri samt að halda áfram að vera aðalþjálfari hjá félagi sem hefur mikinn metnað, gott innra skipulag og flotta aðstöðu. Forráðamenn Malmö hafa ekki rætt við mig og þeir eru að fara í úrslitaleik um áframhaldið í Evrópudeildinni. Ég held að þeir fari ekki að pæla í næstu leiktíð fyrr en þátttöku þeirra í Evrópudeildinni lýkur," segir þessi geðþekki maður um orðróminn um að hann sé að fá starf hjá Malmö.

„Fram undan hjá mér núna er að fara í endurmenntun hjá Julen Lopetegui hjá Sevilla og svo í heimsókn til Dinamo Zagreb. Svo fer ég í það að klára UEFA Pro License námið mitt í desember þannig að það er nóg að gera hjá mér á næstum vikum. Samhliða þessu skoða ég stöðu mína og kíki á það hvað er í boði fyrir mig. Vonandi kemur eitthvað spennandi og skemmtilegt verkefni upp í hendurnar á mér," segir þessi 37 ára gamli þjálfari um framhaldið hjá sér.