James Milner mun leika aftur í sérstakri Manchester City-treyju í kvöld þegar hann tekur þátt í góðgerðarleik til heiðurs Vincent Kompany á Etihad-vellinum.

Milner er óvinsæll hjá stuðningsmönnum City eftir að hafa afþakkað samningstilboð félagsins árið 2015 og samið við Liverpool í staðin.

Þrátt fyrir það gefur Milner kost á sér í góðgerðarleiknum á eftir þar sem Vincent Kompany verður þakkað fyrir árin tíu sem hann lék fyrir Manchester City áður en Kompany yfirgaf félagið í sumar.

Milner mun ásamt leikmönnum á borð við Joe Hart, Kolo Toure, Stephen Ireland, Craig Bellamy, Mario Balotelli, Micah Richards, Richard Dunne og fleirum leika undir stjórn Pep Guardiola í kvöld.

Andstæðingarnir eru ekki að verri endanum en þar má finna Thierry Henry, Robin Van Persie, Ryan Giggs, Paul Scholes, Neville-bræðurna Phil og Gary, Rafael Van der Vaart og Cesc Fabregas og fleiri.

Allur ágóði af leiknum rennur til styrktar samtaka sem aðstoða heimilislausa í Manchester-borg en Kompany var ötull stuðningsmaður samtakanna þegar Belginn lék með Manchester City.