Ásta Kristins­dóttir, sem hefur sannar­lega verið að stíga upp með kvenna­lands­liðinu í fim­leikum í ár og átt frá­bært mót, segir stelpurnar al­gjör­lega til­búnar í slaginn í dag er keppt verður til úr­slita á EM.

Ásta segir verk­efnið þó erfitt þar sem miklar breytingar hafa orðið á liðinu frá því þær unnu Evrópu­meistara­titilinn í fyrra.

Alls hafa fjórar nýjar stelpur komið inn í kvenna­lands­liðið úr ung­linga­lands­liðinu og ein úr blandaða ung­linga­lands­liðinu.

Engu að síður enduðu ís­lensku stelpurnar í þriðja sæti eftir undan­keppnina, einungis 1,625 stigum á eftir Svíunum sem leiddu keppnina. Þess má geta að í fyrra munaði tveimur heilum stigum á Ís­landi og Sví­þjóð en stelpurnar bættu upp muninn í úr­slitunum og tóku Evrópu­meistara­titilinn.

Ásta segir að það megi í raun líta á undan­keppnina sem bara annan æfinga­dag en stigin fylgja liðunum ekki inn í úr­slitin.

„Við erum auð­vitað að stefna á fyrsta sætið en það er ekki auð­velt verk­efni. Við erum búnar að vinna mikið fyrir þessu heima á Ís­landi og það er að skila sér í höllinni. Við erum samt sem áður með annað lið núna og erum búnar að fara í gegnum þó nokkrar manna­breytingar. Við mætum hins vegar á­kveðnar á morgun með sama mark­mið í huga,“ segir Ásta.

Spurð um undan­keppnina segir Ásta stelpurnar mjög sáttar en með­vitaðar um að þær geti bætt sig.

„Fimmtu­dagurinn fór bara eins og hann átti að fara. Við eigum að eiga eitt­hvað inni. Við vorum með helling af hnökrum,“ segir Ásta og bætir við það hefði ekki verið gott fyrir and­legu hliðina hefðu þær átt sinn besta dag í undan­keppninni.

„Við vitum að við eigum helling inni sem er annað en önnur lið,“ segir Ásta. Norsku stelpurnar urðu fjórðu í undan­keppninni, næst á eftir Ís­landi en þær áttu mögu­lega sinn besta dag en það dugði ekki til.

Ís­lensku stelpurnar hafa verði dug­lega að flagga ís­lenska fánanum í höllinni.
Mynd/Aðsend

„Við munum auka erfið­leikann á dýnu í úr­slitunum, við vorum að spara nokkrar á fimmtu­daginn viljandi. Svo verða líka gerðar breytingar á dansinum,“ segir Ásta og bætir við að það sé gott fyrir hugar­farið að vita að það séu stig inni til að sækja.

„Við viljum alltaf hafa ein­hverja punkta til að hugsa um. Við viljum ekki koma inn á mótið og hugsa: við gerðum allt full­komið á fimmtu­daginn, við viljum frekar vera að hugsa hvað það sé sem við þurfum að laga,“ segir Ásta.

Stelpurnar tóku því ró­lega í gær eftir undan­keppnina. „Við vöknuðum snemma og tókum teygju­hring fyrir utan hótelið. Okkur stelpunum var síðan boðið út að borða hjá Happ í há­deginu í gær. Það var skemmti­legt,“ segir Ásta.

Spurð um hvernig líkam­lega standið er á stelpunum eftir undan­keppnina segir Ásta þær í góðu standi.

„Eins góðar og við getum verið, svona miðað við,“ segir Ásta.

Liðið geislaði af sjálfs­öryggi í undan­keppninni.
Mynd/Fjóla Þrastardóttir