KA-menn hafa verið í viðræðum við Akureyrarbæ undanfarin ár um uppbyggingu á svæði félagsins við Dalsbraut. Um nýliðna helgi skrifuðu Akureyrarbær og Knattspyrnufélag Akureyrar undir viljayfirlýsingu er snýr að uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu.

Fram kemur í viljayfirlýsingunni að KA sé nú heimilt að hefja deiliskipulagsvinnu á félagssvæði sínu þar sem stefnt er að byggingu gervigrasvallar, áhorfendastúku og félagsaðstöðu.

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, segir að um stórt skref sé að ræða og fagnar því að félaginu sé treyst til þess að vinna deiliskipulag að framtíðaruppbyggingu félagssvæðis síns. Það er sérstaklega ánægjulegt að kórónaveirufaraldurinn hafi ekki meiri áhrif á áform bæjarins um uppbyggingu á svæðinu en faraldurinn hefur nú þegar haft.

„Þetta eru auðvitað gríðarlega ánægjuleg tíðindi að málin séu að þokast í rétta átt hvað uppbyggingu á svæðinu okkar varðar. Áformum um byggingu á svæðinu við Dalsbraut var frestað um eitt ár vegna faraldurins og við KA-menn sýnum því fullan skilning. Það er hins vegar afar jákvætt að bærinn sýni vilja í verki að láta áformin ekki frestast enn frekar,“ segir Ingvar Már í samtali við Fréttablaðið um viljayfirlýsingu bæjarins og félagsins.

„Við höfum í töluverðan tíma haft hug á því að byggja alla okkar starfsemi upp á KA svæðinu við Dalsbraut. Í því felst ákveðið hagræði. Þá er það svo að félagið hefur eflst mjög á síðustu árum og iðkendum fjölgað mikið ekki síst vegna þess hvernig bærinn hefur byggst upp undanfarin ár. Skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri sem kom út í október 2019 tók að stóru leyti undir okkar sýn.

Engu að síður þarf að horfa á heildarmyndina. Núgildandi samningur KA við Akureyrarbæ um nýtingu á Akureyrarvelli rennur út árið 2024 og það er vilji beggja aðila að starfið muni færast alfarið að Dalsbraut í stað þess að bæta þá aðstöðu sem þar er fyrir. Það er ljóst að Akureyrarvöllur þarfnast mikils viðhalds og uppbyggingar ef hann á að hæfa því starfi sem knattspyrnudeildin sinnir.

Hvorugur aðilinn hefur áhuga á því og það er nokkuð skýrt í íþróttastefnu Akureyrarbæjar að það er vilji til að fækka íþróttafélögum, en ekki endilega íþróttagreinum, með þeim hætti að fjölgreinaíþróttafélögin taki að sér stærra hlutverk. Það er stefna KA-manna að sem mest af starfseminni verði við Dalsbraut,“ segir Ingvar Már um stöðu mála hjá félaginu.

„Það er auðvitað vilji KA að hafist verði handa við uppbyggingu fyrr og mikilvægt að skoða alla möguleika í því samhengi. Við verðum hins vegar að virða þær aðstæður sem eru uppi vegna þess fjárhagslega höggs sem faraldurinn hefur verið fyrir rekstur bæjarins.

Bærinn hefur eyrnamerkt samtalst 600 milljónir í verkefnið sem við teljum duga fyrir gervigrasvellinum og stúkunni í kringum hann. Félagið telur að heildarkostnaður á þeim framkvæmdum sem eru fyrirhugaðar hlaupi á um það bil 850 til 1.000 milljónum samkvæmt grófu kostnaðarmati.

Nú verður farið í þá vinnu að smíða deiliskipulagið í samstarfi við deildir félagins þar sem greint verður hvaða þarfir eigi að fara í forgang. Það er ekkert launungarmál að við þurfum að bæta félagsaðstöðuna töluvert til þess að við getum annað eftirspurn með tilhlýðilegum hætti,“ segir formaðurinn um næstu skref í byggingu mannvirkjanna.

„KA er mikilvægt fyrir samfélagið hér á svæðinu. Við höfum áhuga á að efla okkar starf enn frekar í samræmi við þær skyldur og kröfur sem gerðar eru til okkar. Til að svo megi verða gefur það augaleið að bæta þarf aðstöðuna hjá okkur. Því gleðjumst við yfir því að síðustu mánuði hefur komist skriður á okkar mál og þrátt fyrir heimsfaraldur eru menn samstíga í því að horfa til framtíðar,“ segir hann enn fremur um framhaldið.