Nokkura óánægju gætir á meðal meðlima í Golfklúbbnum Oddi vegna mótahalds sem tekið hefur yfir völlinn á síðustu dögum og vikum. Frá 14 júní til 23 júní vor sex mót haldin á vellinum sem tekið hefur tíma af almennu félagsfólki.

Fréttablaðinu hafa borist nokkrar ábendingar frá félagsfólki sem reiddist nokkuð í gær. Þá var boðsmót á vellinum, almennt félagsfólk ætlaði svo að spila völlinn að því loknu en þá var skálinn lokaður. Eitthvað sem enginn hafði vitneskju um.

Kári Sölmundarson formaður Golfklúbbsins segist í samtali við Fréttablaðið meðvitaður um málið. „Ég kannast við það að það sé búið að vera töluvert mótahald síðustu tvær vikurnar, ég get skilið að það pirri suma. Það er eðlilegt en þetta er mikilvægur tekjuliður fyrir alla golfklúbba að vera með samstarfsmaninga við fyrirtæki og aðila. Þetta raðast óheppilega núna, þetta kemur allt á sömu vikurnar. Mót sem hefðu verið í ágúst eru núna í júní," segir Kári við Fréttablaðið.

Almennt félagsfólk greiðir vel yfir 100 þúsund krónur fyrir aðgangi að vellinum á ári hverju og þykir sumum vel í lagt að loka vellinum fyrir fólk sex sinnum á níu dögum. Völlurinn er þó ekki lokaður allan daginn en oft á þeim tíma sem fólk spilar hvað mest.

„Sumt af þessu eru ekki stór mót, við erum golfklúbbur á einkalandi og þurfum að borga okkar leigu. Við erum eina íþróttafélagið í Garðabæ þar sem þarf að borga fyrir afnot af mannvirkjum," segir Kári en tekur fram að honum þyki miður hvernig mótin hafi raðast niður.

Mikið er í gangi hjá Oddi þessa dagana en Evrópumót stúlknalandsliða í golfi verður haldið á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi í Garðabæ í byrjun júlí 2022. Á mótinu keppa fremstu áhugakylfingar Evrópu 18 ára og yngri. Evrópska golfsambandið, EGA, er framkvæmdaaðili mótsins. Evrópumót landsliða eru stærstu mót sem EGA stendur fyrir ár hvert.

„Það er búið að leggja gríðarlega vinnu í þetta mót, þetta er gefandi fyrir klúbbinn. Það verða yfir 100 sjálfboðaliðar að störfum við mótið," segir Kári.